Það er ekki góð tilfinning að líða ekki nógu vel í eigin landi

Tilfinningar.

Hef svoleiðis - en ekkert of mikið af þeim!

Hef á síðasta ári og það sem af er þessu fundið fyrir tilfinningu sem aldrei áður hefur gert vart við sig.

Aðeins í vitleysunni fyrir hrunið reyndar.

Líklega er það sama tilfinningin og knúði Styrmi til að lýsa þjóðfélaginu sem viðbjóðslegu.

Það er býsna stór og víðtæk fullyrðing og ég tek ekki undir hana nema sérstaklega á einu sviði þjóðlífsins.

Þegar kemur að peningum.

Öll þessi ofurlaun, dæmdir bankaræningjar kaupa upp heilu hverfin til útleigu á okurverði fyrir ránsfenginn og byggja hótel út um allar trissur.

Eftir því sem launamunurinn verður meiri í þjóðfélaginu er þeirri augljósu lygi haldið að fólkinu að munurinn sé hvergi minni!

Bara svo eitthvað sé nefnt.

Og ekki má gleyma þeim einbeitta ásetningi að halda hér tugum þúsunda við fátæktarmörk, á sama tíma og hin sjálfskipaða elíta á meiri peninga en hún getur nokkru sinni eytt!

Og tilfinningin vaxandi - hver er hún?

Í stuttu máli.

Að ég hugsa sífellt oftar til þess að dvelja erlendis og koma til eigin lands sem gestur.

Hef fylgst alveg þokkalega með þróun okkar samfélags hátt í hálfa öld.

Síðustu misserin hefur þróunin til aukins ójöfnuðar hreinlega gengið fram af mér, spillingin kraumar sem aldrei fyrr.

Lygar, blekkingar og svik virðast vera eldsneytið sem knýr þjóðfélagið áfram.

Verst er að vera áhorfandi að þessu öllu og geta ekki gert nokkurn skapaðan hlut í málinu.

Þá er kannski best að skapa hæfilega fjarlægð og eyða dögunum í einhverri annarri hringiðu lífsins.

Á fallegum stað þar sem matadorpeningar ræningjanna hérlendis eru ekki gjaldgengir.


Engir bloggvinir

Átti marga bloggvini hér á árum áður.

Þegar hér var fjör og margt um manninn.

Nú engan.

Það er fínt.

Vil hafa það þannig.

Hér er líklega best að vera einfari.

 


Sumt er svo víðáttuvitlaust hjá okkur að halda mætti að Bakkabræður væru að stjórna - en líklega voru þeir ekki nógu vitlausir!

Hvaða snillingum ber að þakka fyrir fyrirkomulagið?

Kosið verður í bæjar- og sveitarstjórnir landsins þann 26. maí í vor.

Ekkert athugavert við það.

Framboðfrestur er til klukkan 12:00 á hádegi þann 5. maí, þremur vikum fyrir kjördag.

Ekkert athugavert við það, nema ef vera skyldi að sá frestur er allt of nálægt kjördeginum.

En viti menn!

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin - mánuði áður en framboðsfresti lýkur!

Hvaða fíflagangur er það?

Það eru hvergi komnir fram listar með formlegum hætti - samþykktir sem löglegir af viðkomandi kjörstjórn!

Spurði fulltrúa sýslumanns hvernig fólk færi að því að kjósa þegar þessi fáránlega staða er uppi.

Tja, við erum með allt stafróið á stimplum!

Aldeilis flott!

**********

Íslensk stafrófsvísa:

A, á, b, d, ð, e, é,

f, g, h, i, í, j, k.

L, m, n, o, ó og p

eiga þar að standa hjá.

R, s, t, u, ú, v næst,

x, y, ý, svo þ, æ, ö.

Íslenskt stafróf er hér læst

í erindi þessi skrítin tvö.

        (Þórarinn Eldjárn)

*********

Vantar bara C hjá Þórarni!

Hleypur vel á snærið hjá stimplagerðarmönnum!

En það liggur ekkert fyrir hvaða listabókstaf þau framboð fá sem eru ekki hefðbundin flokkaframboð!

Þetta er svo gjörsamlega glatað fyrirkomulag - að spyrja verður:

Hverjum datt eiginlega í hug að hafa þetta svona?

 Kjörkassinn 2


Hinar sovésku aðferðir Sjálfstæðismanna í borginni og ríkisstjórninni

Hér áður fyrr hlógu Sjallar mikið að hreinsunum í forustu kommúnistaflokks Sovétríkjanna.
 
Svo hreinsuðu þeir duglega í forustusveitinni í Reykjavík - að sovéskum sið!
 
Hér áður fyrr hlógu Sjallar dátt að fimm ára áætlunum kommúnista í Sovétríkjunum.
 
Í dag kynntu þeir svo fimm ára áætlun að sovéskum sið!
 
Svona geta nú hlutirnir hitt gagnrýnendur sjálfa fyrir - á þeirra heimavelli í formi sjálfsmarka!

Að virkja - eða lifa á mosanum?

Í hnotskurninni frægu er þetta nokkurn veginn svona:

Vinstri menn vilja helst ekkert virkja vegna umhverfissjónarmiða.
Hægri menn vilja virkja sem mest vegna atvinnusjónarmiða.

Án atvinnu lifir enginn á mosa.

Er því hægri maður í virkjunarmálum.


Ábyrgð þeirra sem svelta vegakerfið er mikil þegar slys vegna aðstæðna ber að höndum

Bylgjan í dag.

Það var aumt að heyra Vilhjálm Árnason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, koma því með semingi út úr sér að um 6 milljarða útgjöld vegna samþykktrar Samgönguáætlunar hafi ekki verið fjármögnuð.

Hvers vegna voru þau ekki fjármögnuð?

Var Sjálfstæðisflokkurinn kannski of upptekinn við að lækka skatta?

Það er yfirhöfuð sárgrætilega aumt að heyra þá, sem fjárveitingavaldið hafa haft í langan tíma, tala í forundran um að vegakerfið sé að grotna niður vegna fjárskorts.

Bjuggust þeir kannski við að vegakerfið héldi sér við sjálft?

Þetta fólk þarf að líta sér nær og íhuga hver sé þáttur þess og ábyrgð á öllum þessum slysum - öllu þessu eignatjóni, glötuðum mannslífum og örkumlun margra til lífstíðar.

Ráðandi stjórnmálaflokkar eru ábyrgir fyrir því að fjármagna viðhald þeirra eigna sem ríkið á.

Ótal margt af því sem miður fer verður því rakið beinustu leið til þeirra ákvarðana.

Aðrir geta ekki verið ábyrgir.


Þau eru mörg opnu bréfin samkvæmt málskilningi Sigurjóns M. Egilssonar!

Hvað er OPIÐ BRÉF?

Samkvæmt mínum skilningi er það bréf í greinarformi sem stílað er á einhvern sérstakan einstakling, stofnun eða forstöðumann hennar.

Með "opnu bréfi" er tilgangurinn að allir sjái hvaða erindi er verið að senda - en ekki bara viðtakandinn.

Eftir tölvupóstsamskipti gærdagsins hef ég uppgötvað þetta:

Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Miðjunnar, telur allar færslur á samfélagsmiðlum, sem ekki eru lokaðar - vera ígildi opinna bréfa!

Sama gildir þá væntanlega um allar aðsendar greinar sem berast fjölmiðlum - og eru hvorki stílaðar á einn né neinn sérstaklega!

Hann telur færslu sem ég skrifaði um húsnæðismál Ingu Sæland vera "opið bréf".

Tók hana orðrétt upp og kynnti sem slíka.

Af því að færslan var ekki lokuð neinum!

Ég hef aldrei á ævi minni ritað neinum formlegt opið bréf - en sett inn margar færslur - bæði á bloggi og á Facebook!

Kæru lesendur og skrifarar á samfélagsmiðlum!

Vissuð þið að í hvert sinn sem þið setjið eitthvað á netið - þá eruð þið að skrifa OPIÐ BRÉF - í skilningi Sigurjóns M. Egilssonar, ritstjóra vefmiðilsins Miðjunnar?

Vissulega eru slík skrif oftast opin öllum sem vilja lesa - en að telja þau "opin bréf" samkvæmt viðteknum málskilningi - sýnir ótrúlega vankunnáttu verðlaunablaðamannsins Sigurjóns M. Egilssonar.

Hann birti þó tilvitnaða færslu innan gæsalappa - eins og vera ber.

Honum er því greinilega ekki alls varnað!


Hver verður jólagjöfin í ár frá fólkinu við Austurvöll?

Jólagjöfin í ár?

Kannski fullsnemmt að velta því fyrir sér.

Sumarið verður rólegt í pólitíkinni.

Smá vorfjör 26. maí og næstu daga þar á eftir.

Svo rólegt.

Fólk fær frið fyrir óværunni fram á haustið.

Þá nær undiralda samsærisins gegn fólkinu sér á strik að nýju.

Verslanir fara að huga að jólavarningnum og íhuga hve álagningin geti orðið há.

Þingmenn fara að huga að fjárlagagerðinni fyrir alvöru.

Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þess torleysta verkefnis.

Það verður eins og að leysa erfiðustu kjaradeilurnar hjá sáttasemjara ríkisins.

Ríkisstjórnina skipa þrír gjörólíkir flokkar.

Tveir þeirra þurfa að ná saman - sá þriðji samþykkir allt í sínu metnaðar- og skoðanaleysi.

Himinn og haf eru á milli áherslna Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í þjóðmálunum - á pappírunum að minnsta kosti.

Hvorugur flokkanna vill hrista af sér fylgið með of mikilli eftirgjöf á stefnumálum sínum.

VG með sína félagsmálapakka - Sjallar með fjármálapakkana fyrir vini sína.

Það væri líklega rökleysa að halda því fram að flokkarnir komi sér saman um fjárlög næsta árs.

Allt eins líklegt er að hin opinbera jólagjöf í ár sé í hægfara mótun.

Sprungin ríkisstjórn.


Slagorðið sem gleymdist í allri græðginni

Stétt með stétt.

Er það gamall að muna vel eftir notkun þess slagorðs í ræðum og riti.

Sjálfstæðisflokkurinn hinn fyrri notaði þetta.

Sú notkun var alls ekki út í bláinn þá.

Nú heyrist þetta aldrei.

Sjálfstæðisflokkurinn hinn nýji vogar sér ekki að nota þetta, enda algjört öfugmæli við stefnu og gjörðir flokksins eftir að krumlur frjálshyggjunnar læstust um forustumenn hans.

Nú á auðmannastéttin allt sviðið.

Hinir mega bíða eftir brauðmolum af svignandi krása borðunum.

Í nútímanum er hið fagra slagorð ekkert annað en kulnuð glóð.

Kannski eitthvað fyrir hið svokallaða verkalýðsráð flokksins til að rifja upp á fundum ef skortur er þar á umræðuefnum!

Stétt með stétt.

Slagorðið sem græðgin gleypti?

Einmitt!

Stétt gegn stétt - væri nærri lagi.


Spurningakeppni fjölmiðlanna á Bylgjunni - furðulegir málstælar Stefáns Pálssonar

Spurningakeppni fjölmiðlanna á Bylgjunni er oft hin besta skemmtun.

Kristnitakan var árið 1000 - ekki tíu hundruð - á mæltu máli.

1900 er ártal.

Aldrei talað um það sem árið - eittþúsundog níuhundruð - á mæltu máli.

2000 var aldamótaár.

Aldrei talað um það sem árið -  tuttuguhundruð - á mæltu máli.

Nú er árið 2018.

Aldrei talað um það sem  - tuttuguhundruðog átján - á mæltu máli.

Læt ýmislegt pirra mig.

Meðal annars svona ófyndna stæla.

Slökkti á Bylgjunni í dag þegar spurningahöfundur fór að klæmast á þessu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Björn Birgisson

Höfundur

Björn Birgisson
Björn Birgisson

Er Ísfirðingur, búsettur í Grindavík síðan 1975, óflokksbundinn alla tíð, en áhugasamur um þjóðmál, smærri sem stærri. Afrekaskráin mín í lífinu er vel varðveitt leyndarmál. Er þó tvöfaldur einherji, þrátt fyrir 18 í forgjöf! Ef mikið liggur við er síminn minn 692-8060.

Færsluflokkar

Apríl 2018
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ÞKGR
  • Siðlausi Mogginn (2)
  • Kastljós (2)
  • Lýðskrum (2)
  • Guð2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband