17.6.2010 | 20:40
Sannur og góður Íslendingur kvaddur
Faðir minn Birgir Finnsson er allur eftir farsæla ævi, bæði í einkalífinu og opinberum afskiptum af bæjarmálum Ísfirðinga og síðar þjóðmálunum sjálfum. Sannur heiðursmaður er þar með fallinn frá. Hann var næstelstur núlifandi fyrrverandi þingmanna þjóðarinnar, aðeins öðlingurinn Vilhjálmur Hjálmarsson frá Brekku í Mjóafirði er eldri. Þessi kynslóð er óðum að týna tölunni og hennar verður sárt saknað. Þar fóru menn sem unnu sínu samfélagi gagn af heilindum, knúnir áfram af ættjarðarást og viljanum til að gera vel fyrir sitt samfélag.
Þannig sé ég ekki stjórnmálin fyrir mér nú. Það er svo önnur saga.
Afar vænt þótti mér um að sjá að minningu föður míns væri sýnd virðing af hálfu hins opinbera við útför hans. Auk fjölmargra annarra góðra kirkjugesta voru mætt fyrirmenni þjóðarinnar. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis, allmargir fyrrverandi þingmenn og ráðherrar. Allt þetta fólk, sem og aðrir kirkjugestir, þekkti föður minn af góðu einu og vildi kveðja og heiðra minningu hans með nærveru sinni. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.
Hér á eftir fer afrit af ræðu Ástu Ragnheiðar, forseta Alþingis, sem hún flutti til minningar um Birgi Finnsson úr ræðustól Alþingis:
"Í nótt lést á sjúkrahúsi í Reykjavík Birgir Finnsson, fyrrverandi forseti sameinaðs Alþingis. Hann var 93 ára að aldri.
Þorgeir Birgir Finnsson var fæddur á Akureyri 19. maí 1917. Foreldrar hans voru Finnur Jónsson alþingismaður og ráðherra og fyrri kona hans, Auður Sigurgeirsdóttir húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og hóf þá um haustið nám í hagfræði við Háskólann í Stokkhólmi. Stríðsátökin sem hófust haustið 1939 bundu enda á frekara nám hans erlendis. Hann sneri sér þá að afgreiðslu fiskflutningaskipa sem sigldu til Englands öll stríðsárin frá Ísafirði en þangað fluttist hann barnungur með foreldrum sínum. Hann varð síðar framkvæmdastjóri Samvinnufélags Ísfirðinga 19451961.
Birgir Finnsson gekk snemma til liðs við Alþýðuflokkinn og var kjörinn bæjarfulltrúi hans á Ísafirði árið 1942 og sat þar samfellt í sex kjörtímabil fram til ársins 1966. Forseti bæjarstjórnar var hann í 10 ár. Hann átti sæti í stjórnum ýmissa félaga og stofnana á sviði sjávarútvegsins, t.d. Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum og í síldarútvegsnefnd þar sem hann var lengi formaður. Í haustkosningum 1959 tók Birgir Finnsson forustusæti á lista Alþýðuflokksins í hinu nýmyndaða Vestfjarðakjördæmi og sat samfellt í 12 ár á Alþingi fram til 1971 þegar talsverðar sviptingar urðu í stjórnmálum þar. Er þingferli hans lauk fluttist hann til Reykjavíkur og starfaði við endurskoðun í allmörg ár.
Eftir alþingiskosningarnar 1963 var Birgir Finnsson kosinn forseti sameinaðs Alþingis og gegndi því embætti í átta ár, samfellt lengur en nokkur annar maður í sögu þingsins. Í forsetatíð Birgis urðu margvíslegar framfarir í starfsemi þingsins. Húsakostur þess var aukinn verulega og miklar breytingar urðu á launakjörum alþingismanna. Alþjóðlegt samstarf Alþingis jókst á þessum árum og tók Birgir sem forseti þingsins fullan þátt í því. Hann var traustur og öruggur á forsetastóli, réttsýnn í fundarstjórn og samvinnufús við alla þingmenn.
Bernskuheimili Birgis Finnssonar var mótað af stjórnmálaþátttöku föður hans um langan tíma. Birgir fetaði í fótspor hans og varð öflugur liðsmaður Alþýðuflokksins á Ísafirði og síðar á landsvísu meginhluta starfsævi sinnar. Hann kom því margreyndur sem forustumaður í atvinnu- og sveitarstjórnarmálum til starfa á Alþingi og varð þar áhrifamaður um málefni Vestfjarða og sjávarútvegsins.
Birgir Finnsson bar sterk persónueinkenni í dagfari sínu. Hann var hógvær í allri framgöngu, málefnalegur og sanngjarn í umræðum og alþýðlegur í besta máta. Öll störf sín vann hann af samviskusemi og vandvirkni. Sem fyrirsvarsmaður Alþingis gætti hann sóma þess í hvívetna en vildi ekki láta meira á sér bera en nauðsynlegt var. Jafnaðarmaður var hann í orði og verki.
Ég bið þingheim að minnast Birgis Finnssonar, fyrrverandi forseta þingsins, með því að rísa úr sætum."
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Blessuð sé minning þessa sanna og góða Alþíðuflokksmanns/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 17.6.2010 kl. 21:31
Takk fyrir það Halli gamli.
Björn Birgisson, 17.6.2010 kl. 22:16
Votta þér; og fjölskyldu þinni, mínar innilegustu samúðarkveðjur, Björn minn.
Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 01:10
Ég á ekkert betra, beint frá hjartanu, til að kveðja annan krata genginn. Blessuð er minning hans.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 18.6.2010 kl. 01:14
Óskar Helgi, mínar bestu þakkir fyrir hlý orð. Þau eru vel þegin.
Björn Birgisson, 18.6.2010 kl. 01:15
Axel minn Jóhann, takk fyrir rósina fallegu og kveðjuna.
Björn Birgisson, 18.6.2010 kl. 01:19
Sendi þér hér Bjössi minn mínar innilegustu samúðarkveðjur vegna fráfalls föður þíns og tek jafnframt undir þau orð sem þú lætur hér fylgja til minningar um hann. Ég veit að hér er kvaddur góður maður sem unni sinni þjóð og vann henni allt það besta sem hann gat. Á mínu heimili fyrir vestan var ávallt talað af mikilli virðingu og hlýjum um þennan alþingismann okkar vestfirðinga, þó ekki hafi hann verið þingmaður þess flokks sem foreldrar mínu kusu.
Guðmundur Ágúst Kristinsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 10:59
Guðmundur Ágúst, kærar þakkir fyrir þessa góðu kveðju.
Björn Birgisson, 18.6.2010 kl. 11:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.