24.9.2010 | 21:47
Uppteknir uppboðshaldarar sem böðlar fortíðarinnar
"Tillögurnar eru settar fram núna, vegna þess að ástandið í þjóðfélaginu er grafalvarlegt og samtökin meta það sem svo að annað hrun sé yfirvofandi, ef haldið verður áfram á þeirri braut sem við erum á núna." segir hinn ötuli Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna.
Það verður að segjast alveg eins og er að stærstu vandamál þessarar þjóðar, það er að segja vandamál hinna venjulegu borgara, sem eru að rembast við að halda þakinu yfir höfði sér, virðast illa komin í höndum ríkisstjórnarinnar. Hún hefur gert ýmislegt, en flest það hefur bara verið plástur á krabbameinið sem frjálshyggjan innleiddi hérlendis og hefur aldrei beðist velvirðingar á.
Nú eru uppboðshaldarar á Íslandi uppteknustu menn landsins, rétt eins og fallaxarböðlarnir voru uppteknustu menn Frakklands í kjölfar stjórnarbyltingarinnar miklu, sem hófst árið 1789 þar í landi. Gott ef þeir unnu ekki á vöktum við sínar afhausanir!
Hvernig væri að ríkisstjórnin færi að hlusta betur á og taka meira tillit til þess sem kemur frá Marinó G. Njálssyni og hans ágæta félagsskap?
Fyrir hverja eru Marinó og félagar að vinna?
Fyrir hverja er ríkisstjórnin að vinna?
Ég held að allri þjóðinni finnist að ríkisstjórninni þyki vænna um bankana en fólkið sem þetta land byggir. Því betur sem það kemur í ljós, því hryggari verður maður. Svona á þetta ekki að vera!
Hvernig er hægt að láta sér eitthvað annað koma til hugar þegar til dæmis stefnir í 450-500 uppboð á Suðurnesjum einum saman á þessu ári? Það jafngildir uppboði á þokkalegu bæjarfélagi við sjávarsíðuna í heilu lagi!
Hvað er uppboð á húsi einnar fjölskyldu?
Það er uppboð á heiðarlegum svita þess sem byggði sér hreiður fyrir ástina sína og ungana. Uppboð á ómældri vinnu, bakverkjum, andvökunóttum, milljón handtökum, vonbrigðum, fórnum og síðan gleðinni sem fylgir því að flytja loksins inn í sitt eigið kot.
Þessi hrina uppboða er jafnvel ljótari leikur gagnvart þegnum þessa lands, en rán útrásarvíkinganna úr fjárhirslum bankanna.
Þeir stálu bara peningum.
Uppboðin stela sálum, sjálfsvirðingu heillar kynslóðar og eru þessari þjóð, öllu heldur stjórnvöldum hennar, til háborinnar skammar.
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það hefur komið ljós, eftir á, í það minnsta, að tvö af þeim úrræðum stjórnvalda, eða úrvinnsla þeirra, eru svo sannarlega ekki að baka fjármálafyrirtækjum skaða.
Greiðsluaðlöðunin sem menn hreyktu sér af, er í rauninni, ekkert annað en skuldatilfærsla, frá lántaka yfir á ábyrðarmann skuldar lántakans. Með öðrum orðum, þá er fallinn dómur á þann hátt að fjármálafyrirtæki, megi ganga á eignir ábyrgðarmanns skuldar, þó svo að samið hafi verið um greiðsluaðlöðun og hún sé í umsömdu ferli.
Hitt er svo þetta svokallaða leiguúrræði uppboðsþola, þar sem fólki er boðið að búa í húsnæði sem það hefur nýlega misst á uppboði, gegn því að borga leigu. Leigan er reiknuð út frá fasteignamati, þar sem stuðullinn er ca. 45 þús kr. fyrir hverjar 10 milljónir í fasteignamati, sem er nálægt þeirri leigu sem að nýr eigandi eignar fengi, tæki hann þann kostinn að leiga íbúðina út á frjálsum markaði, þannig að ekki tapar hann neinum ósköpum. Rökréttara hefði þó verið úr því að úrræðið á að vera hugsað fyrir fólk í vanda, að leiguverð færi hverju sinni, eftir greiðslugetu viðkomandi.
Kristinn Karl Brynjarsson, 24.9.2010 kl. 22:11
Kristinn Karl, takk fyrir þetta. Í gamla daga fórum við félagarnir oft í tindátaleik. Stilltum upp okkar hersveitum og notuðum svo litla stálkúlu til að valda usla hjá óvininum með hnitmiðuðum skotum. Að leik loknum og síðasta stríðsmanninum föllnum, rétt eins og í Valhöll, voru tindátarnir endurreistir til frekari átaka.
Hætt er við að uppboðsböðlar samtímans endurreisi ekkert annað en lánastofnanir, en láti hinar sönnu hetjur liggja áfram í valnum.
Björn Birgisson, 24.9.2010 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.