21.12.2010 | 22:18
Þegar Atli Gíslason talar um einelti er skörin heldur betur farin að færast upp í bekkinn
"Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að Lilja Mósesdóttir, flokkssystir hans hafi almennt verið lögð í pólitískt einelti í langan tíma. Atli segist biðja um málefnalega umræðu."
Ég held að Atli Gíslason sé glöggur og góður karl, en hér skýtur hann algjörlega á skakkan lunda.
Lilja Mósesdóttir er ekki lögð í einelti af nokkrum manni svo ég viti. Miklu heldur er hún að leggja sjálfa sig í einelti og saka aðra um glæpinn.
Hún kann að vera klár í ýmsum málum, hagfræðimenntuð manneskjan. En hún virðist vera algjör rati, rétt eins og hvert annað krakkarassgat, þegar kemur að samvinnu við annað fólk. Fái hún ekki allt sitt í gegn með ógnarhraða, fer hún í 40 ára fýlu og segir sig úr nefndum og ráðum og rýkur á dyr í fússi.
Það eru kannski stór orð að segja, en hún virðist óhæf til samvinnu og þess nauðsynlega samstarfs sem þarf að eiga sér stað, þegar stórar og þungbærar ákvarðanir þarf að taka. Svo plantar hún því í Moggann að allir þingmennirnir séu að níðast á sér í tölvupóstum! Heimildaskessan á Mogganum kokgleypir agnið, en báðar koma þær frá málinu með öngulinn í rassinum og orðnar að athlægi þjóðarinnar! Oft er talað um storm í vatnsglasi, en sjaldnar um storm í fingurbjörg.
Einelti? Hvaða þvaður er þetta í Atla Gíslasyni lögmanni?
Hélt kannski að eineltishugtakið hefði skýrst betur fyrir honum þegar hann vildi krossfesta nokkra samþingsmenn sína og draga þá fyrir Landsdóm. Annað eins pólitískt einelti hefur aldrei litið dagsins ljós á Íslandi, og gerir vonandi aldrei aftur.
Nei, Atli Gíslason. Það er ekkert einelti í gangi gagnvart Lilju. Síður en svo. Einelti þitt gagnvart Geir Haarde og fleira fólki var miklu alvarlegra mál. Aðför að pólitískum andstæðingum, svo lúaleg að hennar verður minnst á meðan þetta land helst í byggð.
Verður svo ekki eineltisdrottningin kjörinn maður ársins? Alla vega þingmaður ársins!
Þarf maður virkilega að fara að skipta um þjóð?
Lilja lögð í pólitískt einelti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Miðað við orð þín hér að ofan þá mæli ég með því að þú framkvæmir lokaorðin...
Með kveðju
Kaldi
ps...
Hálpartinn skammast sín fyrir að vera ættaður að Vestan eftir þennann lestur.
Ólafur Björn Ólafsson, 21.12.2010 kl. 23:20
Ólafur Björn, hvað var svona skammarlegt í færslunni? Mikil synd að að særa stolt þitt til upprunans, sá var ekki tilgangurinn, enda snerist færslan nákvæmlega ekkert um þig!
Björn Birgisson, 21.12.2010 kl. 23:26
hún virðist vera algjör rati, rétt eins og hvert annað krakkarassgat, þegar kemur að samvinnu við annað fólk. Fái hún ekki allt sitt í gegn með ógnarhraða, fer hún í 40 ára fýlu ...
Þegar haft er í huga að hún fer fram með sína sannfæringu annað enn flestir aðrir þingmenn sem virðast bara vera strengjabrúður...
Tek fram að ég þekki ágætlega hennar fjölskyldu og starfaði með föður hennar fyrir nokkrum árum, vinnusamt og gott fólk þar á ferð.
Hún fer ekki í 40 ára fýlu þó á móti blási en ég hef fullann skilning á hjásetu hennar þar sem hún væri að kaffæra egin sannfæringu ef hún hefði stutt fumvarpið.
Ólafur Björn Ólafsson, 21.12.2010 kl. 23:40
Ólafur Björn, skelfing eru barnalegur. Engan varðar um að þú hafir unnið með föður Lilju. Örugglega finn kall. Þetta mál snýst um Ríkisstjórn Íslands, fall hennar eða framhald. Þar getur Lilja verið örlagavaldur, en þú klárlega ekki.
Björn Birgisson, 21.12.2010 kl. 23:50
Björn " Það skiptir engu máli þótt þú skiptir um þjóð, það breitir engu! Kveðja.
Eyjólfur G Svavarsson, 22.12.2010 kl. 01:02
Eyjólfur minn, ætli ég haldi mig þá ekki á skerinu. Á svo stutt eftir að það tekur því ekki að abbast upp á aðrar þjóðir, nema þá sem skammtíma gestur! Þakka þér innlitið, kærlega. Bestu kveðjur austur!
Björn Birgisson, 22.12.2010 kl. 01:15
Blessaður Björn.
Var maðurinn með yfirvaraskeggið vinstrimaður þar sem hann kenndi flokk sin við sósíalisma?? Hvað er vinstri maður, hvaða stjórn er vinstri stjórn???
Þar sem ég er alinn upp í kommabæli, þá tel ég mig þekkja ágætlega málflutning íslenskra sósíalista, las Þjóðviljann sáluga á sumrin í vinnunni, og Austurland var alvörublað, ritstýrt af fólki með hugsjónir.
Það var því mjög rökrétt hjá þessu fólki að andskotast út í þau skötuhjú Regan og Tatcher, einkavinavæðingu þeirra og velferðaruppbyggingu auðmanna. Þegar þau beitt áhrifum sínum í þá átt að lærisveinar Friedmans yfirtóku þá hákapítalistastofnun, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá fór sjóðurinn í óvinabók íslenskra sósíalista. Enda ekki nema von, fyrir utan að bera beina ábyrgð á ótímabæru andláti milljóna manna, þá hefur sjóðurinn stuðlað að þrælkun fólks, ráni á auðlindum þess, allt í þágu velferðarkerfis Tatchers og Regans, velferðarkerfis hins alþjóðlega auðmagns.
Þetta er siðferðisgrunnur andstöðu félagshyggjufólks um allan heim, ekki bara á Íslandi, gegn stefnu AGS. Svo hefur árangurinn af stefnu hans verið enginn, enda sjóðurinn margoft fallinn, ekki með 4,9 heldur 0,5, hann hefur valdið meira tjóni en gagn hjá þeim þjóðum sem hann hefur "aðstoðað". Um þetta er ekki deilt Björn, þetta er kennt í kennslubókum, í sagnfræði, í hagfræði. Og sjóðurinn sjálfur margoft og ítarlega beðið afsökunar á afglöpum sínum.
Eftir stendur því stóra spurningin, síðan hvenær var það vinstrimennska að styðja sjóðinn???, og aðkomu hans að efnahagslífi þjóða????
Það er ekki vinstrimennska í Suður Ameríku, eða Asíu eða Afríku, þar á sjóðurinn fáa vini, þó einhverja, það finnast líka gyðingar sem studdu manninn með yfirskeggið, þóttu hann harður gegn heimsógn bolsévikanna.
Viðast hvar í Evrópu þá þarf að víggirða svæði þar sem menn tengdir sjóðnum koma saman, þannig að ekki á hann bakland þar hjá vinstrafólki. Og á Íslandi, alveg fram yfir áramótin 2008-2009, þá má finna fullt af greinum, og fjölmiðlaviðtölum, þar sem íslenskir vinstrimenn fordæmdu óráð sjóðsins. Þeir sem börðu potta og pönnur voru almennt mjög sammála um það.
Svo við drögum þetta saman Björn, þá eru sterk álitamál uppi að tengja saman "vinstri" og stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og erfitt að skilja með hvaða rökum, ríkisstjórn sem fylgir stefnu sjóðsins, geti gert kröfu til slíkrar nafngiftar.
Ef þetta er vinstristjórn, þá voru gömlu alþýðuhetjur Neskaupstaðar, þeir Bjarni, Lúðvík og Jóhannes, ekki vinstri menn.
En þeir voru málsvarar alþýðunnar. Um það deilir enginn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2010 kl. 10:01
Ómar, takk fyrir þetta. Fyrir nokkrum áratugum var skarpur munur á vinstri mönnum og hægri mönnum. Hann er lítill í dag, einhver þó. Þú hefur minna álit á AGS en flestir sem ég hef heyrt tjá sig um sjóðinn og notar gjarnan um hann stór orð. Sem er í góðu lagi mín vegna. Einhverrar tiltrúar nýtur hann þó því mörg eru löndin sem leita til hans þegar kreppir að. Enda kannski ekki í mörg hús að venda.
Stjórnmál segir þú. Það er eins og frá hruninu hafi ekkert pláss verið fyrir stjórnmál. Allt snýst um að redda hlutunum fyrir horn og hægt og bítandi fer stóru vandamálunum vonandi að fækka. AGS fer þá úr landi og stjórnmálamennirnir okkar geta farið að leggja grunninn að næsta hruni með sínum hefðbundnu stjórnmálum, yfirboðum og eyðslu um efni fram.
Björn Birgisson, 22.12.2010 kl. 13:32
Blessaður Björn.
Þetta hefst vonandi allt einhvern veginn. Samt vona ég án bjarnargreiða vinarþjóða okkar, þjóðin muna aldrei geta borgað til baka 650 milljarða, ekki nema þá á mörgum áratugum, með tilhlýðandi harðindum á meðan. Er hræddur um að börn okkar muni frekar grípa til vopna en að standa í slíkri vitleysu.
En tíminn skýrir það líka, alla vega er gott að vera laus við hina 650 milljarðana, þökk sé forseta vorum og fósturjörð. (Jamm, sleppi því að kenna hann við Grís, en hef alltaf gert það eftir aðförina að Gvendi Jaka, hann er núna svona á biðlista um fyrirgefningu).
En þetta með AGS og að margir leit til hans, það er eins og það er. Málaliðar voru oft eftirsóttir í gamla daga. Til dæmis hvatti Marteinn Lúther þýska fursta til að leita eftir þjónustu þeirra við að skera og saga sundur þýskar alþýðuhetjur. Og það voru svissneskir málaliðar sem vörðu Bastilluna.
Á síðustu öld voru síðan skriðdrekar mikið notaðir til að segja fólki að halda kjafti, eins var líka mikið leitað til AGS. Eftir valdatöku Friedmansdrengja, þá var slíkt alltaf sorgarsaga almennings þeirra þjóða sem nutu náðarmeðala sjóðsins. En fyrir þann tíma, má margt jákvætt segja um gjörðir hans. Eins var það með skriðdreka, þeir gerðu líka margt þarft, losuðu til dæmis heiminn við manninn með yfirvaraskeggið.
Ætli það sé ekki tilgangur þeirra sem leita eftir hjálp, og tilgangur þeirra sem veita hana sem skiptir öllu. Hver vill hjálpina og hverjum hún er veitt. AGS náði allavega góðum díl fyrir krónueigendur sem vilja fá gull, skilur maður það svo sem vel, ég keypti mér Kiu fyrir mínar krónur, treysti ekki álinu.
En burtséð frá allri pólitík, þá ætti það að vekja mönnum ugg að landsstjóri AGS gat aðeins bent á eitt land af um 30 sem hefði ekki komið illa út úr aðstoð sjóðsins á síðustu þremur áratugum. Ætli hann hefði ekki rekið spurninguna öfuga ofaní AGS andstæðinginn, hefði hann haft fleiri dæmi á takteininum. Helstu gagnrýnendur sjóðsins, menn eins og Krugman og Stiglitz, fengu ekki Nóbelinn, fyrir beinar lygar um þessa hjálparstofnun féspákaupmanna, trúi því ekki, ef þeir gætu ekki staðið við hverja einustu fullyrðingu, þá væri búið að margkrossfesta þá í fjölmiðlum auðmanna um allan heim, sem erum um það bil 99% af öllum fjölmiðlum heimsins. Held að það sé á hreinu.
Og íbúar Suður Ameríku geta ekki allir verið vænisjúkir, þeir glotta núna stórum yfir að Evrópa fái að kynnast sínum eigin meðulum, núna ætla þeir að flytja út byltinguna, og fá í staðinn hlutabréfin á almenningseigum og náttúruauðlindum sínum.
Og það skiptir ekki máli Björn hvað ég eða þú, eða allir aðrir hér á Fróni segja um Lilju, hún hefur staðreyndir sögunnar með sér, og því miður heilbrigða skynsemi líka í efnahagsmálum. Friedman var falsspámaður, það var hugmyndafræði hans sem rændi heimsbyggðina, ekki stjórnmálamenn okkar, þeir sem dönsuðu ekki með voru aðeins keyptir út, fjarlægðir, í öllum flokkum.
Auðrónar og auðræningjar eru öflugra eyðingarafl en stjórnmálamenn, þeir hafa vissa hæfni, en eru bara amatörar miðað við hina sönnu meistara. Sjáðu bara AG risann, eða Lehmans bræður, fyrirtæki sem áttu rætur aftur á nítjándu öld, og voru það stöndug að það átti ekki vera hægt að koma þeim á hausinn, ekki nema þá á löngum tíma. En það tók snillingana innan við 7 ár að gera það. Og það er snilld.
En svona er þetta, og einhvern veginn fer þetta.
Og annað sem er víst, er návist þess friðar sem fylgir jólunum.
Óska ykkur öllum þarna suður með sjó gleðilegra jóla, megi kvótinn vera aukinn á næsta ári.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.12.2010 kl. 22:20
Og einhvernvegin var það þegar ég tölti um víða velli, að ég gleymdi erindinu.
Ég er sammála þessum pistli þínum, og það er þarft að þú minnist á þessa hluti.
Ég er stjórnarandstæðingur, varð á þriðju mínútu blaðamannafundar Jóhönnu og Steingríms þegar Jóhann tilkynnti að samstarfið við AGS yrði ekki endurskoðað. Og ég hef stutt hugmyndir Lilju, frá því ég heyrði fyrst í henni tala um annað en femínisma.
En Lilju er engin greiði gerður með svona væli, og Ólína er ómaklega tengd við spunann. Allt læst fólk greinir ekkert níð, frekar má segja að Ólína fari mjög fínt í að segja að hún vildi að Steingrímur næði stjórn á sínu liði. Og í hennar stöðu, sem stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar, þá er það augljós vænting.
Þetta hlýtur að vera þreytandi.
Og þú komst inn á annan punkt, ekki síðri. Atli gjaldfelldi sig þegar hann tók þátt í Landsdóms skrípaleiknum, og þegar hann talar um einelti, þá er maður hissa á styrk mannsins að hafa afl til að kasta bjarginu út um glerrúðurnar. Og því miður þá féll Lilja í sömu gryfjur, líka allir þingmenn Hreyfingarinnar með tölu.
Þeir sem er ekkert betri, geta ekki sett sig á siðferðislegan þröskuld og galað yfir lýðinn. Þeirra gal er alltaf gal lofthanans.
Stundum virðist eini munurinn á þeim sem gagnrýna ríkjandi óstjórn og spillingu (einkavini og vinaráðningar) og hinum sem framkvæmdum, vera sá hvorum megin kjötkatlana þeir eru.
Þeir sem gagnrýndu höfðu ekki haft aðgengið, en þeim hefur dreymt svo lengi um það.
Eineltið gagnvart Geir var allavega ekki ávísun á nýja hugsun sem er lykilforsenda nýrra vinnubragða.
Jæja, mér tókst aftur að koma mér um víðan völl, svona fara fríin frá skotgröfunum oft með menn, enda á völlunum þegar þeir nenna ekki að þrífa eldhússkápa.
Aftur Jólakveðjur í Grindavíkina.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 23.12.2010 kl. 09:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.