21.3.2011 | 18:58
Það knýr enginn galeiðu áfram með handónýtum og fýlugjörnum ræðurum
Í stjórnmálum er oft gripið til líkindamáls. Einn flokkurinn hoppar upp í til annars og oft er talað um þjóðarskútuna sem allir vilja að sigli seglum þöndum í góðum byr. Svo er ekki nú. Hreint ekki. Reyndar oft verið siglt bratt í fölskum byr.
Í gamla daga sigldu galeiður um heimshöfin knúnar áfram með vindi í seglin. Væri vindur ekki hagstæður tók við handafl þrælanna neðjan þilja, sem oft voru látnir róa lífróður með níðþungum árum undir svipuhöggum og trumbutakti kvalara sinna.
Íslenska þjóðarskútan er ekkert annað en galeiða um þessar mundir. Með illa laskaðan seglabúnað og knúin áfram með handafli kjörinna þræla þjóðarinnar, sem nú róa lífróður í átt til betri tíma, með svipuhögg helmings þjóðarinnar á blóðugu bakinu.
Á þrælabekknum gilda viss lögmál. Þar verða menn að standa saman og róa í takt. Þar segir enginn að hann nenni þessu ekki, vilji þetta ekki, eða vilji eitthvað annað. Þar er valið ekkert. Nákvæmlega ekkert. Illir ræðarar rjúfa samstöðuna og samstöðuleysi leiðir til glötunar galeiðunnar og frjálsrar áhafnarinnar, jafnt sem hlekkjaðra þrælanna neðan þilja.
*****************
Í tilefni af leiksýningu Atla og Lilju í þinghúsinu í dag vil ég segja þetta.
Þau hafa verið illir ræðarar í stjórnarsamstarfinu. Reyndar eins og óþekkir krakkar, sem fara í fýlu, ef ekki er allt gert samkvæmt þeirra ósk. Í 35 manna liði er ekki pláss fyrir 35 skoðanir. Það sér hvert mannsbarn. Meirihlutinn ræður. Það er víst kallað lýðræði.
Halda menn að leitað hafi verið til AGS með einhverja gleði í hjarta? Halda menn að valkostirnir hafi verið fjölmargir? Halda menn að þjóðirnar hafi beðið í löngum biðröðum eftir því að hjálpa okkur?
Halda menn að reynt hafi verið að semja um Icesave með einhverja gleði í hjartanu? Síður en svo. Það hafa menn gert með tárin í augunum og æluna í kokinu. Í raun styður enginn Íslendingur aðkomu og harkalegar kröfur AGS og þaðan af síður Icesave viðbjóðinn. Það er ekkert annað en lúalegt óþverrabragð að halda öðru fram.
Þegar mál eru þannig að allar lausnir eru vondar, þá dugar ekkert lýðskrum. Menn verða að hafa kjark og þor til að velja illskásta kostinn. Það hafa menn vonandi verið að gera. Það ætlar Bjarni Benediktsson að gera þann 9. apríl, samkvæmt því hvernig hann greiddi atkvæði um frumvarpið umdeilda.
Varðandi brotthvarf Lilju og Atla úr þingflokki VG.
Það er af hinu góða. Það knýr enginn galeiðu áfram með handónýtum og fýlugjörnum ræðurum, þar sem samtakamátturinn skiptir öllu. Algjörlega öllu.
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 602569
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Björn, af hverju heldur þú að lífið hér á landi þurfi að vera þrældómur???
Og hverjir þurfti þessa meintu hjálp???? Til hvers átti að nota gjaldeyrislán AGS???
A. hjálpa almenningi
B. hjálpa fyrirtækjum
C. hjálpa krónubröskurum.
Svarið er C, en það er þekkt, úr rúmlega tveggja áratuga sögu frjálshyggjustýringu AGS að C. leiðin, sem hann sérhæfir sig í, er leið galeiðunnar, ekki fyrir kjörna fulltrúa, heldur þjóðina.
Og fyrir þessa galeiðuvæðingu bar AGS opinberar afsökunar fyrir nokkrum árum síðan.
Hvað fær þig til að halda að fólk geti ekki verið frjálst við þrældóm Björn. Forfeður mínir, vinnumenn og vinnukonur trúðu því og héldu til byggða að veiða fisk, og selja úr landi.
Hvað hefur breyst???
Óttinn við að þjóðin fari á hausinn ef hún þarf að endursemja um stóra gjaldeyrislán Seðlabankans??? Hverjum er ekki sama, það hafa yfir þrjátíu ríkið endursamið um sín lán á síðustu 20 árum, einmitt til að koma í veg fyrir galeiðuþrældóm almennings. Og þau fá ennþá lán, hagstæðari lán því þegar almenningur er ekki á galeiðunni, þá er hann að skapa verðmæti fyrir sig og sína, slíkt skilar sér í hagsæld og öflugri almannasjóðum.
Spáðu betur í þetta Björn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.3.2011 kl. 19:54
Ómar minn, þú ert mælskur baráttumaður, en kýst stundum að horfa fram hjá raunveruleikanum í baráttu þinni. Réttilega sagðir þú:
"Forfeður mínir, vinnumenn og vinnukonur trúðu því og héldu til byggða (sjávar) að veiða fisk, og selja úr landi."
Þessir forfeður okkar allra í þessu landi eyddu ekki 15-20 krónum, fyrir hverjar 10 sem þeir þénuðu.
Þar liggur meinið.
Ég skynja að þér hafi ekki líkað þessi færsla mín. Ég get lifað með því.
Björn Birgisson, 21.3.2011 kl. 20:08
Þú bauðst mér í kaffi til þín Björn. Mér finnst þú hella bara uppá export en ekkert kaffi ef þér finnst lítil eftirsjá í Lilju og atla.Þetta lið hélt á skattapískunum sem bylja á baki okkar. Nú er þetta dót að missa tökin eins og sálufélagi þess hann Gaddafi í Líbýju. Að vísu fáum við enga aðstoð tl að koma því frá borði, verðum að gera það sjálf.
Reyndu nú að skilja það Björn minn að það verður ekki drekkandi neitt kaffi hjá þér nema þú hellir upp á bláu könnuna og notir eitthvað annað en export.
Við förum ekkert á hausinn, það þorir enginn að ganga að okkur. Við erum ríkasta þjóð í heimi. Við bara þykjumst vera blankir.
Halldór Jónsson, 21.3.2011 kl. 20:33
Halldór Jónsson er flottur karl. Hann skrifar:
"Reyndu nú að skilja það Björn minn, að það verður ekki drekkandi neitt kaffi hjá þér, nema þú hellir upp á bláu könnuna og notir eitthvað annað en export.
Við förum ekkert á hausinn, það þorir enginn að ganga að okkur. Við erum ríkasta þjóð í heimi. Við bara þykjumst vera blankir."
Við þykjumst bara vera blankir!
Besta setning kreppunnar. Ekki nokkur vafi!
Blönk þjóð í felulitum náttúrunnar!
Snilld!
Takk Halldór Jónsson gleðigjafi!
Björn Birgisson, 21.3.2011 kl. 20:53
Ha, ha, þú skautar framhjá raunveruleikanum Björn. Það voru burgeisarnir í gamla daga sem lifðu um efni fram, og tóku meiri lán, og komu þeim á aðra.
Forfeður mínir þekktu kreppu, þegar fölsk lífskjör stríðsáranna hrundu. Þá herti fólk sultarólina, en seldi hvorki frá sér báta eða skepnur. Hvað þá að það seldi börn sín í skuldaþrældóm til að geta sjálf haft það aðeins betra.
Svo kom aftur góðæri, saltfiskur seldist á háum verðum, þá var góðæri í þessu sjávarplássi.
Einn dag hrundi Spánarmarkaður, margir áttu mikið af óseldum saltfisk. En samfélagið sló skjaldborg um bátana, skjaldborg um hvert annað. Þó ekkert var hægt að selja, þá var hægt að veiða fisk, og fugl, þeir sem voru of gamlir eða lasburða, ekkjur og fátæklingar, fengu líka fisk, fyrir lítið sem ekkert. Hér svalt enginn. Hér stóð enginn í biðröð eftir mat.
Og engum datt í hug að láta samfélagið taka lán til að borga út burgeisana, þeir féllu sem féllu. En samfélagið bjargaði sér, með ólina herta um mittið. Það eru sagðar sögur af mönnum sem fóru á Norðfjarðarbátunum á vertíð suður á Hornafjörð, og þegar þeir komu heim, þá var ljóst að þeir höfðu ekkert haft upp úr krafsinu, útgerðin fékk ekki fyrir olíunni, og kallarnir varla fyrir nauðsynlegum útgjöldum eins og sjófatnaði, eða brennivíni til að létta sér landlegurnar.
Einn gamall maður sagði frá því Björn, að árið sem hann fermdist þá fór hann á vertíð, og vertíðin náði að borga fermingarfötin, reyndar með herkjum.
Og úttektin hjá kaupmanninum hélt áfram að hækka. En hann gekk ekki að fólki, hvað þá að hann krefðist þess að fólk seldi frá sér bjargirnar, allir biðu eftir vertíðinni sem gaf af sér. Bankinn var ríkisbanki, hann gekk ekki að útgerðinni, ekki nema þá hjá þeim sem héldu áfram að lifa sem burgeisar.
En hann krafði aldrei fólk um að taka á sig AGS lán til að borga út Burgeisana.
Í sögu Ísafjarðar er sagt frá því þegar kratar tóku völdin, og þeirra fyrsta verk var að stofna bátaútgerð, pólitíkin var notuð til að kría út lán, og að mig minnir 8 bátar voru smíðaðir, og gerðir út til að fólk gæti bjargað sér. Enginn lagði til að lánið væri tekið til að borga út breska banka sem lánuðu hinum föllnu útgerðarmönnum.
Enginn lagði til ICEsave eða AGS.
Vegna þess að þetta var fólk, nýlosnað af galeiðu vistarbandsins. Það varði lífsbjörg sína, skapaði sér lífsbjörg þegar kreppan tók gömlu útgerðarmennina.
Og þetta var jafnaðarfólk, það borgaði ekki út auðmenn til að ekkjur og gamalmenni syltu.
Hér á Norðfirði uppskáru menn svo framsýnina Björn, menn áttu ennþá flesta bátana, og allar olíuskuldirnar, þegar stríðið skall á. Afgamlir bátar, sem ekkert viðhald höfðu fengið af viti í mörg ár, alltof litlir, veiddu fisk og sigldu með hann til Bretlands. Á innan við tveimur árum voru skuldirnar greiddar og til peningar í sjóði til að kaupa sér hafskip, 50-80 tonna báta, þú getur ímyndað þér stærðina á þeim sem fyrir voru.
Svona björguðu forfeður mínir sér, þeir stóðu saman, og þraukuðu erfiðleikana. Þeir vældu ekki út risalán til að borga út gjaldþrota burgeisa, hvað þá að þeir skuldsettu börn sín fyrir tapi erlendu bankanna sem töpuðu stórfé á gjaldþrota kaupmönnum og útgerðum.
Og þeir nýttu sér pólitíkina í Reykjavík til að tryggja að bankinn lánaði útgerðinni, fyrst og fremst með því að endurnýja víxlana, sem og að lána fyrir fyrstu olíuáfyllingunni. Um þetta voru allir sammála, jafnt kratar sem íhald.
Björn, ég hélt að þú kynnir þessa sögu líka, vonbrigði mín felast ekki í innihaldi færslunnar, heldur að þú skulir hafa skrifað hana.
En þú getur líka lifað með því.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.3.2011 kl. 20:56
Sæll Björn. Það er meiri djö... fortíðarhyggjan í þessari færslu þinni.
Ekki það að ég hafi orðið fyrir sérstökum vonbrigðum með hana ,nei, nei ,hún er fróðleg og bara fín en ekki mjög nútímaleg. Þó kemurðu inn á nýjustu fréttir, sem mér finnst í raun engar sérstakar fréttir, af Atla og Lilju. Ef umsögnin þín ( með tilvitnun í Bjarna Ben ) um þau hefðu komið frá ríkisstjórninni held ég að þau hefði skorað feitt og eflaust margir snúist yfir á "Já við Icesave "
Gaman að Halldóri
Aldrei er mér boðið í neitt kaffi , ekki einu sinni exportuppáhellingu ... kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 21.3.2011 kl. 21:27
Mælskur ertu og skemmtilegur, Ómar Geirsson baráttumaður! Ekki verður það af þér tekið. Aldrei.
Ekki ætla ég mér að svara þér í neinum smáatriðum, enda engin ástæða til.
Sumt má einfaldlega liggja hér í loftinu, lesendum til glöggvunar.
Sögu Samvinnufélags Ísfirðinga þekki ég þokkalega. Sú saga er samofin einni mestu baráttu vinstri sinna í þessu landi, við öflin sem vildu verkalýðsbaráttuna feiga. Ég er stoltur af framlagi minna ættmenna til þeirrar baráttu. Föður míns og föðurafa míns.
Ísafjörður var ekki nefndur rauði bærinn að ástæðulausu, frekar en þinn fallegi bær, með fengsæl mið skammt undan, til dæmis við Díönuboðana, en þar átti ég tvo fegurstu daga í atvinnuþáttöku minni, mér og þjóðinni til tekna. Ekki meira um það að sinni.
Talandi um útgerð Samvinnufélags Ísfirðinga. Löngu eftir að það ágæta félag leið undir lok, átti ég þess kost, sem fjórtán ára unglingur, að fara sumarpart á skak með höfðingjanum Ólafi Sigurðssyni, sem þá hafði nokkrum árum fyrr, eignast Ásdísina, einn Samvinnufélagsbátinn.
Það voru dýrðarstundir. Karlinn sagði okkur endalausar sögur, kom svo að færinu sínu og dró tvöfalt, ef ekki þrefalt, á við okkur hina, slakaði svo á og hélt sögunum sínum áfram. Þvílík upplifun fyrir unglinginn.
Algjör perla karlinn.
Eitt mesta og besta innlegg í minningabankann minn.
Ómar, við þurfum ekki að vera sammála um nokkurn hlut nema einn. Aðeins einn. Og hann er stór.
Að virða hvorn annan.
Björn Birgisson, 21.3.2011 kl. 21:30
Æi, Kolla mín, leitt að valda þér vonbrigðum með skrifum mínum! Ég verð að leiðrétta það með því að fara fram á að ég verði lagður niður, sem og þessi vettvangur, sem þannig getur orðið þér til leiðinda, fallega og góða kona!
Mér finnst þessi færsla reyndar nokkuð góð og stend við hana eftir endurskoðun! Ég hef gaman af sögunni og að tala og skrifa líkindamál í ljósi hennar. Segja ekki fræðin að sagan endurtaki sig alltaf?
Kaffi? Það er bara á milli mín, Halldórs Jónssonar, Miltons Friedman, hagfræðings og Nóbelshafa og sundlaugarinnar í Laugardal!
Þú ert að sjálfsögðu alltaf velkomin í kaffi, mín kæra.
PS. Hefur þú lesið skáldsöguna Saltbragð hörundsins eftir frönsku skáldkonuna Benoite Groult í frábærri íslenskri þýðingu Guðrúnar Finnbogadóttur. ...
Björn Birgisson, 21.3.2011 kl. 21:56
Nei ég hef ekki lesið þessa bók....ætti ég að gera það? Er að lesa Yrsu núna og kemst ekkert áfram fyrir draugagangi hahaha og svo hef ég verið að lesa Camillu Läckberg og á eftir tvær fyrstu bækurnar hennar. Hún er skemmtilegur höfundur.
Þú veldur mér ekki vonbrigðum en mér finnst bara óraunhæft að tala um það sem gert var fyrir einni öld eða svo í sömu andrá og þann vanda sem við blasir núna, nema það sé allt í plati eins og Halldór segir. Ég hef einmitt mjög gaman af tjáskiptum við þá sem eru á annarri skoðun en ég og stundum skiptir maður um skoðun við skoðun mála frá öðru sjónarhorni.
Veit vel að þetta með kaffið er myndlíking og tilvitnanir í spekinga ( ykkur og tilgreinda verðlaunahafa Nóbels ) og var bara með nýjan vinkil í því efni. Það leggur þig enginn niður nema kannski þín elskulega ektakvinna en vona og bið til guðs að hún hafi líka gaman að þessum skoðanaskiptum okkar allra hér á síðunni þinni. Kveðja Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 21.3.2011 kl. 22:11
Kolla mín, lestu þessa bók. Hún er ekkert annað en snilld og hefur verið kvikmynduð. Stundum er ástin óútreiknanleg og jafnvel forboðin, en samt .............
Björn Birgisson, 21.3.2011 kl. 22:35
Vel svarað, og hlýlegt.
En segðu mér þá eitt fyrir forvitni sakir, hvað voru bátarnir aftur margir??? Hef séð nokkrar ljósmyndir af þeim, en get ómögulega talið þá, eftir minni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.3.2011 kl. 22:39
Svona eiga menn að tala saman. Skiptast á skoðunum í bróðerni og virðingu, Ómar og Björn. Ég virði skoðanir ykkar mikils, þær koma heilakvörnunum af stað. Ég er mikill efasemdarmaður um margt en um eitt efast ég ekki um: Þeir stjórnmálaflokkar (fjórflokkurinn) sem nú sitja á alþingi munu ekki bera gæfu til að koma okkur út úr þessum erfiðleikum. Aðeins við sjálf og samstaða okkar mun gera það. Flokkarnir munu ekki ná neinni samstöðu meðal fólksins. Til að fá almenning til að standa saman þá þarf réttlæti - sést það einhversstaðar?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 22.3.2011 kl. 00:09
Það er gaman af íhaldinu forhertu og svörtu, sem dásamaði Atla og Lilju í hæstu hæðir. En við vitum vel af hverju þessi ástúð í þeirra garð stafaði. Það er hætt við, að núna þegar þau nýtast ekki lengur sem skæruliðar íhaldsins í garði ríkisstjórnarinnar, þá muni ástúð og aðdáun íhaldsins á þessum vinnuhjúunum sínum falla og fölna ansi hratt og þau verði áður en varir aftur einskisnýtu og fúlu kommarnir, sem þau áður voru í augum íhaldsins.
Ekki er víst að Lilju tuskunni líki umskiptin frá því að vera sú sem allir vildu kveðið hafa og geti ekki lengur baðað sig í skjalli og hrósi íhaldsins, sem taldi henni trú um að hún væri mesta og göfugasta mannvitsbrekka sem landið hefði af sér alið og verða aftur að mati íhaldsins ekki hráka þess verð. Um Atla er ekkert að segja, hann er bara misheppnuð málamiðlun.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.3.2011 kl. 00:17
Enginn fréttamaður hefur haft ræunu á aðspyrja lilju og atla út í Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Hann er ein átyllan hjá þeim en samskiptin við hann hafa staðið í rúm tvö ár og vor þau hafin þegar þessi stjórn tók við og svo lýkur samskipunum við sjóðinn innan nokkurra mánaða.
Bara ef þau hefðu verið spurð út í þetta hefði orðið minna úr málinu.
Svo hafa þau dæmt sig til áhrifaleysis og það er vel okkar hinna vegna.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 00:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.