1. október 2011. Austurvöllur. Þennan dag mætir heimskasta þjóð á vesturhveli jarðar þeim fulltrúum sem hún sjálf hefur valið til að gæta hagsmuna sinna. 83%. Geta þau haft rangt fyrir sér? Þjóðin mun líta í spegilinn. Mölbrjóta hann síðan. Hallmæla framleiðanda spegilsins, en aldrei sjálfri sér! Krefjast síðan betri afurðar. Betri spegla. Í þrívídd og endilega með lyktarspjaldi! Framtíð Íslands hlýtur að vera fólgin í fjórðu víddinni, fyrst hinar klikkuðu allar. Ilmur eða skítafýla?
1. október 2011. Austurvöllur. "Mér var uppálagt af bankanum að fara úr 250 fermetrum í 450 fermetra, vegna þess að kjölturakkinn ætti von á sér, þessi líka dúllan! Svo var mér líka ráðlagt að fá mér Hummer, því hann væri miklu betri í snjó, en upphækkaði Landkrúserinn, sem minn ætlaði að nota í veiðina! Stukkum auðvitað á ráðgjöfina, enda í anda alls þess sem við lifðum fyrir!" Hér? Af hverju hér á Austurvelli? "Við viljum auðvitað sýna samstöðu með öllu þessu fólki, sem enn hefur ekki efni á að borga reikningana okkar, en þess tími mun koma! Kalt? Viltu pelsinn?"
1. október 2011. Austurvöllur. Tímamótadagur á Íslandi. Fulltrúar 83% kjósenda mótmæla eigin vali á fulltrúum á löggjafarsamkomuna, á fundi sem haldinn skal í nafni Samstöðu. Samstöðuglundur væri nær lagi sem nafngift á selskapinn.
1. október 2011. Austurvöllur. Ætli félagsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) mæti á samstöðufundinn á Austurvelli? Því ekki? Til að sýna samstöðu með fólkinu sem fjármagnar afskriftirnar eftir hrundansinn þeirra við Mammon. Þann 1. október munu allir Íslendingar fyllast heilagri samstöðu, tala tungum og hefja undirbúning næsta sundurlyndis, sem síðan verður staðfest í næstu kosningum. 1. október verður síðan minnst sem dagsins sem Íslendingar fundu upp eilífðarsundurlyndið, en þó í leit að samstöðunni.
Svo mörg voru þau orð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.