Hvert fór lýðræðið eða kom það kannski aldrei?
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji endurbætta stjórnarskrá.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji bæta kjör aldraðra og öryrkja.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji aukið persónukjör.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji minni afskipti af deilumálum stórveldanna.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji skilgreina forsetaembættið betur.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji breytingar á fiskveiðistjórnun.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji klára viðræður við ESB.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji alvöru gjaldmiðil.
Það er ekki í boði.
Held að meirihluti þjóðarinnar vilji svo ótalmargt - sem hreinlega ekki er í boði.
Samt þykjumst við vera lýðræðisríki!
Forðum var sagt:
Er ekki eitthvað að í henni Kaupmannahöfn?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.3.2018 | 14:21
Hvað með nokkur kraftaverk í viðbót?
Páskar - Hugleiðing.
Páskar eru tími krossfestingar, upprisu og kraftaverka.
Upprisan sem slík hlýtur að vera kraftaverk - til viðbótar þeim kraftaverkum sem Jesús er sagður hafa unnið á meðal manna með því að lækna sjúka með aðferðum sem nútíma læknavísindi ráða ekki yfir og geta ekki skýrt - þrátt fyrir gífurlegar framfarir í þeim vísindum.
Kristnir menn telja að sálir þeirra fari til Guðs að loknu þessu jarðlífi - en víst er að líkaminn fer ofan í jörðina.
Í því liggur munurinn á dauða venjulegs fólks og hins eingetna frelsara.
Andvana líkami hans fannst aldrei samkvæmt hinni fornu sögusögn.
**********
Fylgisspekt almennings við hina kristnu kirkju dalar með hverju árinu sem líður - hérlendis sem erlendis.
Fleiri segja sig úr þjóðkirkjunni á hverju ári, en skírðir eru inn í hana sem ómálga börn - eða affermast úr henni.
Þeim ungmennum fjölgar stöðugt sem kjósa borgaralega fermingu - í stað þess að staðfesta þá vígslu sína inn í þjóðkirkjuna sem skírnin er.
Sjálfsagt eru ýmsar ástæður fyrir þessum úrsögnum eða fráhvarfi - en aðallega hljóta þær að vera vegna vantrúar á boðskapinn.
Önnur skýring er vandfundin.
Er einn þeirra sem yfirgaf samkvæmið að trúleysisástæðum - en ber þó mikla virðingu fyrir því góða starfi sem kirkjan vinnur á mörgum sviðum.
Finnst boðskapurinn óttalega barnalegur og furða mig á vel upplýstu fólki samtímans, sem trúir því staðfastlega að ævintýrið um tilvist hins eingetna - frá jötu til grafar, sem hann hvarf úr - eigi við nokkur rök að styðjast.
Mín skoðun.
Oft er sagt að tími kraftaverkanna sé liðinn.
Það er undarleg fullyrðing eða skoðun - flóttaleg skoðun.
Það sem einu sinni hefur verið gert má alltaf gera aftur.
Ef hin kristna hjörð væri stjórnmálaflokkur - dalandi í fylgi - yrði leiðtoginn ekki lengi að boða nokkur kraftaverk að kosningum liðnum!
Hvað með leiðtogann mikla, sjálfan himnaföðurinn?
Er hann alveg hættur að luma á kraftaverkum - sem aldeilis gætu snúið þróuninni við - honum í hag?
Kristilegu kærleiksblómin spretta - í kring um hitt og þetta - sagði skáldið.
En það þarf að vökva þau reglulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2018 | 12:20
Landsölumenn og landráðamenn
Hver er munurinn á landsölumanni og landráðamanni?
Hvers konar fólk getur samvisku sinnar vegna selt erlendum aðilum hluta úr ættjörðinni okkar til varanlegrar eignar?
Er þeirrar skoðunar að ríkið eigi að leysa til sín allt landrými sem losnar, hvern hektara og hverja þúfu, og endurleigja það síðan, helst Íslendingum, en til vara erlendum aðilum í skemmri tíma.
Það er algjörlega galið að fjársterkir útlendingar sölsi undir sig hverja stórjörðina af annari - oft í afar óljósum tilgangi.
Hér áður fyrr gerðu menn vopnuð strandhögg og sölsuðu undir sig landrými og gerðu heimamenn að þrælum sínum.
Nú til dags eru þessi strandhögg gerð með peninga að vopni og spilað inn á fégræðgi landsölumanna - sem vegna dollaramerkjanna í augunum sjá ekki og skilja ekki að þeir eru að selja hluta landsins sem fóstraði þá. Líklega væru slíkir menn tilbúnir til þess að selja börnin sín líka - fyrir rétt verð.
Hef alltaf litið á orðið landeigandi sem hálfgert skammaryrði, þar sem það er bjargföst skoðun mín að þjóðin eigi að eiga allt landið, miðin og lögsöguna að 200 mílum og gefa engan afslátt af því eignarhaldi sínu.
Spurði:
Hver er munurinn á landsölumanni og landráðamanni?
Svarið:
Enginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2018 | 20:20
Að tilbiðja eignarréttinn - og stela honum svo frá öðrum!
Að tilbiðja eignarréttinn - og stela honum svo frá öðrum!
Það þarf að hafa skoðanir, kjark til að tjá þær og staðfestu til að standa við þær.
Einkavæðing ríkiseigna er algjört eitur í mínum augum, oftar en ekki er hún beinn þjófnaður, þar sem vildarvinum og flokkshestum eru afhentar eignir landsmanna á hlægilegu verði og örugglega gegn svörtum greiðslum undir borðið í flokkssjóðinn.
Hvað getur einkaframtakið gert í samanburði við samtakamátt fjöldans?
Nánast ekki neitt.
Annað en að bíða færis til að stela frá þjóðinni með aðstoð spilltra stjórnmálamanna.
Nokkur dæmi.
* Hefði einkageirinn ráðið við að koma símanum um allt land í byrjun síðustu aldar?
* Hefði einkageirinn ráðið við að koma útvarpi og sjónvarpi um allt land?
* Hefði einkageirinn ráðið við nauðsynlega uppbyggingu sjúkrahúsa um land allt?
* Hefði einkageirinn ráðið við að virkja fyrir öll heimili og fyrirtæki í landinu?
* Hefði einkageirinn ráðið við nauðsynlega hafnargerð til þjónustu við sjávarútveginn og sjóflutninga?
* Hefði einkageirinn ráðið við að framkvæma þá uppbyggingu flugvalla sem átt hefur sér stað í landinu?
* Hefði einkageirinn átt einhvern séns í að byggja upp það vegakerfi sem nú er í landinu?
* Hefur einkageirinn einhver tök á að skipuleggja og reka löggæsluna í landi og á sjó?
* Hefur einkageirinn einhver tök á að byggja upp aðstöðu og reka helstu menntastofnanir þjóðarinnar fyrir unga og eldri?
* Hefur einkageirinn einhvern vilja til og tök á að tryggja öldruðum og öryrkjum mannsæmandi lífskjör?
* Hefur einkageirinn einhvern vilja til og tök á að tryggja blómlegt menningar og listalíf í landinu?
* Hefur einkageirinn sýnt fram á að honum sé treystandi til að höndla með peninga fólks og fyrirtækja?
* Hefur einkageirinn einhvern vilja til og tök á að sjá til þess að hin undurfagra náttúra landsins sé ekki fótum troðin?
Fleira má nefna.
13 spurningar.
13 nei.
Hvaða andlit hefur einkageirinn sýnt þjóðinni til þessa?
Aðeins rauðþrútið af græðgi og með dollaramerkin í glyrnunum.
Hvaða verkefni vill einkageirinn yfirtaka?
Aðeins þau sem hægt er að græða á - hitt mega skattgreiðendur eiga og borga.
Segi nei takk - hingað og ekki lengra.
Þjóðin í heild á að njóta sinna eigin fjárfestinga - ekki fáeinir sérvaldir gróðapungar sem aldrei sjá fegurðina í tilverunni þegar dollaramerkin stækka og byrgja þeim sýn.
Það er þjóðarskömm að í landinu skuli vera óþjóðleg öfl sem virða ekki eignarrétt fjöldans á því sem hann sannarlega hefur greitt fyrir.
Boða svo samtímis ást sína á eignarréttinum!
Þjóðarskömm að svona fólki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2018 | 16:16
Kosningabaráttan í Reykjavík nú er sögulegur viðbjóður
Kosningabaráttan í Reykjavík nú er sögulegur viðbjóður.
**********
Öðlaðist kosningarétt árið 1971, þá tvítugur að aldri.
Hef síðan kosið 15 sinnum til Alþingis og 11 sinnum í sveitarstjórnarkosningum.
Fylgst ágætlega með þróun mála í kosningabaráttunni, en mesta athygli vekja alltaf alþingiskosningarnar og svo baráttan um Reykjavík.
**********
Einmitt.
Baráttan um Reykjavík.
Á þessum tíma hefur hún í raun oftast snúist mest um gengi Sjálfstæðisflokksins og hvort hægt væri að mynda meirihluta án flokksins.
Flokkurinn náði hreinum meirihluta 1974, 1986 og 1990 og myndaði einkar subbulega meirihluta með Framsókn og Frjálslynda flokknum á árabilinu 2006-2010.
Hefur síðan setið í minnihluta og sér nú fram á framlengingu þeirrar setu til ársins 2022.
**********
Hinn sögulegi viðbjóður.
Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í borginni nú, undir forustu Eyþórs Arnalds og einhverrar sjálfskipaðrar klíku, er ekkert annað en rakinn óþverri hvernig sem á er litið.
Hreinum ofsóknum og persónuníði er beitt gegn sitjandi borgarstjórnarmeirihluta, en þó einkum að Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.
Minnist þess ekki að hafa orðið vitni að viðlíka lágkúru.
Í hugann koma fleyg orð Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins:
Þetta er bara ógeðslegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.10.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar