Er eitthvað betra en að vera Íslendingur og eiga góða granna?

Í dag fylltist ég stolti yfir því að vera Íslendingur. Fór glaðbeittur á kjörstað og tilnefndi 25 frábæra fulltrúa til Stjórnlagaþingsins. Það þótti mér gott að gera. En þegar dagsbirtan var að lúta í lægra haldi fyrir skammdeginu fann ég skyndilega hve frábært er að vera Íslendingur og búa í notalegri götu, með góða granna innan seilingar.

Fór mjög seint í háttinn í gær. Alltof seint, enda mikið að gera á blogginu. Fjölmargir gestir þar og margir þeirra með spurningar og athugasemdir, sem reynt var að bregðast við, oftast þó með lítt vitrænum hætti, eins og venjulega.

Um hádegisbil var ég kominn út til að hengja upp jólaseríur á húsið mitt, eins og ég hef gert síðustu 30 árin hér í Norðurvörinni, 14 húsa notalegri götu. Skammdegið skyldi upplýst frá og með fyrsta sunnudegi í aðventu. Vel gekk að koma seríunni upp, en lakar að fá ljós á hana alla.

Tæknilega tregur sem ég er, reyndi ég allt. Skoðaði hverja peru. Skipti og skrúfaði. Aldrei kom ljós nema á hluta þessarar löngu seríu. Dapur í hjarta viðurkenndi ég uppgjöf mína og sá fram á mikil fjárútlát við innkaup á nýjum jólaljósum þetta árið. Setti stigann inn í bílskúr og gafst upp.

Þá er komið að inngangsorðum þessa pistils. Gott er að vera Íslendingur og enn betra að eiga góða granna. Um sex leytið er bankað létt á dyrnar. Ungur maður í næsta húsi stendur á tröppunum.

"Ég sá að þú varst að setja jólaljósin upp, en fékkst ekki ljós á nema hluta seríunnar."

Nei, ætli hún sé ekki bara ónýt.

"Ónýt, það held ég ekki, viltu ekki leyfa mér að yfirfara hana?"

Ástar þakkir fyrir það góða boð, ég þigg það með þökkum.

Viti menn, þessi frábæri ungi maður var kominn með ljós á hverja peru innan stundar og nú lýsir litla kotið okkar Ingibjargar upp skammdegið og leggur sitt að mörkum í ljósadýrð aðventunnar.

Hvað skulda ég þér fyrir þetta minn kæri? Að spurningunni slepptri sá ég í augum unga mannsins að hann var ekki ánægður með hana.

"Skuldar mér? Nákvæmlega ekkert. Mín var ánægjan að geta hjálpað þér."

Þess vegna skrifaði ég í aðfararorðum þessarar færslu:

En þegar dagsbirtan var að lúta í lægra haldi fyrir skammdeginu fann ég skyndilega hve frábært er að vera Íslendingur og búa í notalegri götu, með góða granna innan seilingar.

Þegar við kvöddumst sagði ungi maðurinn.

"Ég ætla að gefa þér perutestarann og rafmagns pennann, ef skyldi bila hjá þér og ég væri kannski ekki heima við til að hjálpa þér."

Fyrir mér var þessi heimsókn ekkert annað en lítið kraftaverk.

Öldungis frábært, takk Garri minn!

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Ég græt!

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 27.11.2010 kl. 21:25

2 Smámynd: Björn Birgisson

Ben.Ax., ég nenni ekki í bæinn til að hugga þig. Hertu upp hugann maður!

Björn Birgisson, 27.11.2010 kl. 21:31

3 identicon

Dásamlegt! :-)

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 27.11.2010 kl. 21:51

4 Smámynd: Björn Birgisson

Ybbar gogg, vissulega dásamlegt. Þarf maður alltaf að skrifa um pólitíkina og dægurþrasið?

Björn Birgisson, 27.11.2010 kl. 21:58

5 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Mínum grönnum finnsr það gott á mig ef það springur hjá mér pera.

Hörður Sigurðsson Diego, 28.11.2010 kl. 08:22

6 Smámynd: Björn Birgisson

Hörður, þú þarft þá að skipta um granna, ekki bara perurnar!

Björn Birgisson, 28.11.2010 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Björn Birgisson

Höfundur

Björn Birgisson
Björn Birgisson

Er Ísfirðingur, búsettur í Grindavík síðan 1975, óflokksbundinn alla tíð, en áhugasamur um þjóðmál, smærri sem stærri. Afrekaskráin mín í lífinu er vel varðveitt leyndarmál. Er þó tvöfaldur einherji, þrátt fyrir 18 í forgjöf! Ef mikið liggur við er síminn minn 692-8060.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ÞKGR
  • Siðlausi Mogginn (2)
  • Kastljós (2)
  • Lýðskrum (2)
  • Guð2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband