"Sjávarútvegsráðherra er eins og fíll í glervörubúð og umræðan almennt er í besta falli tómt rugl"

Á  þessari síðu  hafa kvótamálin stundum verið til umfjöllunar. Reyndar oftar en ekki á neikvæðum nótum að einhverra mati. Öllum skoðunum þó vel tekið og hampað sæmilega jafn hátt. Reynir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Fasteignasölu Reykjaness, ritaði ágæta grein í Tíðindin í Keflavík, sem komu út í dag og gaf síðuhöfundi hér góðfúslega sitt leyfi fyrir endurbirtingu greinarinnar hér á síðu. Gefum Reyni Þorsteinssyni orðið:

Sjávarútvegsmál á Íslandi eru í algjörum ólestri, núverandi sjávarútvegsráðherra er eins og fíll í glervörubúð og umræðan almennt, er í besta falli tómt rugl. Hinir ýmsu þingmenn, með Ólínu Þorvarðardóttir í broddi fylkingar, fara um dreifðar byggðir landsins og reyna þar að snapa hugmyndum sínum um afskriftir á aflaheimildum fylgis.

Þetta er einhver ómerkilegasta leið sem ég hef áður orðið vitni að til að snapa sínum málum fylgis og hef þó marga ausuna sopið í þeim efnum. Boðskapur þessa liðs er alltaf sá sami: Kvótakerfið hefur farið illa með mörg byggðalögin, gjafakvótasægreifarnir sitja á aflaheimildunum og á leigumarkaði deila þeir og drottna.

Umræðan um sjávarútvegmál hefur undanfarinn áratug verið álíka gáfuleg og annað sem úr þingheimsátt má búast við. Fyrst og fremst hafa menn reynt að spila á alla verstu eiginleika mannsins, öfund, illkvittni og meinfýsni.

Það er stjórnmálamönnum eðlislægt að bulla, en það er þó algjör óþarfi hjá almenningi að apa það upp eftir þeim. Sannleikurinn er sá að kvótakerfið hefur ekki farið illa með hinar dreifðu byggðir landsins, heldur hin taumlausa ónáttúra í þorskinum að fara ekki eftir excel-útreikningum Hafrannsóknarstofnunar.

Þegar kvótakerfið var fyrst sett á, var heildarúthlutun í þorski um 400 þúsund tonn, en er nú um 160 þúsund tonn. Þessi 60 % niðurskurður á aflaheimildum í þorski er höfuðvandinn og það sem ýtt hefur undir fækkun í skipaflotanum og lokun fiskvinnslustöðva.

Ég gef mér að hver einasti maður sjái það í hendi sér, að undir þessum taumlausa niðurskurði verður ekki rekið frystihús og togari í hverju einasta plássi. Fækkun báta og vinnsluhúsa er í beinu hlutfalli við skerðingar aflaheimilda í þorski. Liðsmenn Frjálslynda flokksins hafa staglast á því að aldrei hefði átt að heimila framsal aflaheimildanna og jafnvel gengið svo langt að skrifa bankahrunið á framsalsheimildina.

 Hvernig halda menn að umhorfs væri í höfnum landsins í dag, ef framsalið hefði ekki verið leyft á sínum tíma? Þær væru fullar af hálfsokknum eikarpungum og misjafnlega mikið ryðguðum austur-þýskum stálkláfum. Eftir rúmlega tveggja áratuga stanslausan niðurskurð væri engin glóra lengur í því að gera  út stóran hluta flotans og ekkert annað hægt að gera en leyfa þessum kláfum að grotna niður og jafnvel mara hálfir í kafi, hangandi í landfestunum.

Að heimila framsalið var nauðvörn stjórnvalda þess tíma, greinin öll var rekin með áður óþekktu tapi og ekki óvanalegt að margar vikur liðu án þess að starfsfólk sjávarútvegfyrirtækja fengju útborgað. Man ég t.d. eftir einu tilviki þar sem liðu 12 vikur á milli útborgunardaga, en það skal áréttað að á þeim tíma var greitt út vikulega.

Enn eitt „trompið“ sem niðurrifsöflin hafa ítrekað spilað út er gjafakvótaumræðan. -Sægreifarnir fengu þetta afhent á silfurfati og liggja svo á þessu eins og snákar á gulli. Ég hef lengi starfað í þessum geira og þekki engann sem hefur fengið aflaheimildirnar gefnar. Maður sem skuldar fleiri hundruð milljónir og jafnvel fleiri milljarða vegna kvótakaupa hefur varla fengið hann gefins er það? Hingað til hefur enginn viljað svara því hver átti að fá kvótann úthlutaðan á sínum tíma, ef ekki útgerðirnar sem þá voru í rekstri.

Þróun sjávarútvegs hér á landi endurspeglar þá staðreynd að aðgangurinn að auðlindinni er takmarkaður. Skipum og fiskvinnsluhúsum hefur jafnt og þétt fækkað, hátt verð aflaheimilda hefur ýtt mönnum út í frekari vöruþróun og vöruvöndun og er arðurinn til heilla fyrir þjóðarbúið óumdeildur. Það eina sem ekki verður talið þjóðinni til heilla í þessum efnum er umræðan. Hún hefur alið af sér allskyns snillinga sem séð hafa sér leik á borði og í krafti ádeilna sinna á kvótakerfið tekist að troða sér inn á Alþingi Íslendinga.

Þar hefur þetta lið reynt að hanga eins og hundar á roði með ádeiluna á kvótakerfið eitt að vopni.
Í umhverfi því sem sjávarútvegur hér þarf að starfa, gerist hið óumflýjanlega, reksturinn verður vandasamari, straumlínulagaðri og með tíð og tíma er hismið skilið frá. Eftir sitja þeir sem hafa þekkinguna, getuna og viljann til að sækja björg í bú, svo við hinir getum haldið áfram að naga blýanta og sorterað rauðan pappír frá bláum.

Það hefur margoft verið reynt að hirða verðmæti frá þeim sem þau hafa og endurúthluta til þeirra sem aldrei komust alla leið, nú síðast í Zimbabwe.

Ég þarf varla að hafa mörg orð um þá gáfulegu tilraun Mugabe forseta og hvernig hún endaði.

Reynir Þorsteinsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voðalega ertu hrifinn af kvótakerfinu!!

Baldur Kristjánsson (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 21:48

2 Smámynd: Björn Birgisson

Baldur minn, hvernig færðu það út?

Björn Birgisson, 9.12.2010 kl. 21:51

3 identicon

Björn, þakka þér kærlega fyrir að birta þessa grein. Veistu að sem sjómaður til margra ára þá get ég tekið undir hvert einasta orð hjá Reyni. Umræðan um starfið sem ég valdi mér og allt sem því tilheyrir hefur bara verið hræðilega vitlaus. Auðvitað þarf ég sem sjómaður að sækja á mina útgerð um kjarabætur en hvað getur hún gert fyrir mig ef hún fær aldrei annað en skerðingu? Ekki eykst aflahluturinn minn með minnkandi afla sem við megum veiða.

Sæbarinn Sjóari (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 22:27

4 identicon

Skal lesa betur. Bkv. baldur

Baldur Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 00:09

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mjög góð grein og orð í tíma töluð/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 10.12.2010 kl. 00:09

6 Smámynd: Björn Birgisson

Ég þakka innlitin. Þessi síða nærist á þeim!

Björn Birgisson, 10.12.2010 kl. 00:14

7 Smámynd: Magnús Gunnarsson

Góð grein.

Magnús Gunnarsson, 10.12.2010 kl. 10:10

8 identicon

Their sem fengu kvótann upphaflega áttu audvitad ekki ad geta selt hann.  En thad gerdu their.  Their fengu kvóta sem their seldu.  Their seldu eign thjódarinnar og settu peningana í sinn vasa.  Thetta leyfdu stjórnvöld. Framsóknarflokkur og Sjálfstaedisflokkur hafa stadid fyrir thessu sukki og óréttlaeti.

Thad er glaepamennska ad einungis útvaldir einstaklingar hafi adgang ad sameiginlegri eign thjódarinnar.  Thad eru mannréttindabrot.   Sjálfstaedisflokkur segist standa fyrir frjálsri samkeppni en í raun er sá flokkur ómerkilegur hagsmunagaesluflokkur sem tekst vel ad plata marga landsmenn....enda er njósnanet flokksins stórt og umfangsmikid ef marka má thad sem kom fram í Silfri Egils um daginn.

Hó hó hó (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 11:10

9 identicon

Þetta er nú meiri klisjan orðin "Auðlindirnar eiga að vera í eigu þjóðarinnar"  Gerir fólk sér almennt grein fyrir hvað er auðlind??  Það er ekki bara fiskurinn í sjónum og orkan í jörðinni.  Eru ekki allar ár landsins auðlind?  Eru ekki allar jarðir landsins auðlind?  Er ósnortin náttúra landsins auðlind og vindurinn?  Hreint loft....er það auðlind??  Á e-r að geta fengið að nýta þessar auðlindir sér til hagsbóta eða ávinnings?

Þetta er alveg rétt hjá honum Reyni og góð grein hjá honum.  Það er gert útá öfundina að stórum hluta.  Það má enginn sjá að öðrum vegni betur en þeim sjálfum.  Auðlindargjald er það gjald sem á að taka fyrir að nýta allt það sem skilgreinist sem auðlindir allra landsmanna og á að ákvarða það sem % af lið í ársreikningi þeirra sem auðlindina nýta.  Það á ekki að vera að gargast og argast í hver á hvað og hver nýtir hvað!  Það mun aldrei vera hægt svo lengi sem við lifum. 

Bið ykkur vel að lifa og eigið góða helgi,

Gunnar Már

Gunnar Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 12:18

10 identicon

"það mun aldrei verða hægt svo lengi sem við lifum að ná sáttum um þetta.  Það verður alltaf e-r annar sem tekur við því að nýta auðlindina og afhverju hann/hún þá??"

 Þetta átti að vera niðurlagið á bréfinu sem ég skrifaði áðan.....

Kv, GMG

Gunnar Már Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Björn Birgisson

Höfundur

Björn Birgisson
Björn Birgisson

Er Ísfirðingur, búsettur í Grindavík síðan 1975, óflokksbundinn alla tíð, en áhugasamur um þjóðmál, smærri sem stærri. Afrekaskráin mín í lífinu er vel varðveitt leyndarmál. Er þó tvöfaldur einherji, þrátt fyrir 18 í forgjöf! Ef mikið liggur við er síminn minn 692-8060.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ÞKGR
  • Siðlausi Mogginn (2)
  • Kastljós (2)
  • Lýðskrum (2)
  • Guð2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband