22.12.2010 | 00:32
Tvær ólíkar en með vissan samhljóm
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á að baki langan stjórnmálaferil. Hún hefur alltaf þótt nokkuð fylgin sér, svo mjög að margir samstarfsmenn hennar í ríkisstjórnum fyrri ára, ganga svo langt að kalla hana yfirgengilega frekju. Nú eru margir að bera hana og Lilju Mósesdóttur saman, sem er ágætt, en ólíku saman að jafna. Lilja er að hefja sinn feril, en Jóhanna að ljúka sínum.
Reglulega bárust fréttir af því að Jóhanna hafi harðneitað að taka þátt í niðurskurði þegar harðnaði á dalnum hjá ríkissjóði og bar hún því gjarnan við að hennar málaflokkar væru svo viðkvæmir að þeir þyldu engan niðurskurð. Sparnaðinn yrði að finna í hinum ráðuneytunum! Oftast barði hún sitt í gegn með frekjunni.
Árið 1994 fór Jóhanna í stólpafýlu þegar Jón Baldvin sigraði hana í kjöri um formennsku í Alþýðuflokknum. Svo mikla fýlu að hún hikaði ekki við að kljúfa Alþýðuflokkinn með stofnun Þjóðvaka með Ágústi Einarssyni og fleira fólki. Þjóðvaki fékk fjóra þingmenn í kosningunum 1995, sem runnu svo inn í þingflokk Alþýðuflokksins í október árið eftir. Þjóðvaki gekk svo formlega í Samfylkinguna árið 2000.
Þessi stutta ferillýsing segir okkur að oft hafi Jóhanna rekist illa í flokki. Það er því nokkuð skondið að nú komi það í hennar hlut að reyna að berja byltingarliðið í VG til hlýðni. Hún hefur sjálf oft verið í þeirra sporum, en svona er pólitíkin. Fyrrum byltingar- og baráttumenn breytast í kattasmala þegar minnst varir!
Ekki veit ég hvort Lilja hefur viðlíka bein í nefinu og Jóhanna. Það mun taka hana mörg ár að sýna það og sanna. Þó virðist hún á góðri leið með að kljúfa flokkinn sinn og virðist rekast illa í nefndastarfi þegar hún fær ekki allt sitt fram, ef marka má frásögn Björns Vals, flokksbróður hennar.
Jóhanna hefur verið þingmaður síðan 1978.
Því má í lokin spyrja:
Hvað verður Lilja Mósesdóttir að gera eftir rúm 30 ár og hvaða sögu mun hún eiga í pólitíkinni í millitíðinni?
Verður ferill hennar stuttur eða langur?
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.