Lýðræðið skorið niður í rennibekk fyrir austan

Þorgrímur S. Þorgrímsson, einn þeirra þriggja sem kærðu Stjórnlagaþingskosningarnar, býr víst í Neskaupstað og leitaði til lögmannastofunnar Réttvísi ehf. á Eskifirði til að annast kæruna fyrir sig og á heimasíðu stofunnar má lesa kæruna undirritaða af Esther Hermannsdóttur hdl. fyrir hönd Þorgríms.

Miðað við öll þau atriði sem skáru í augu Þorgríms, samkvæmt kærunni, má ljóst vera að hann er óvenju eftirtektarsamur maður. Maður sem tekur vel eftir öllu frá hinu stærsta til hins smæsta.

Fyrir mér var dagurinn í gær kolsvartur. Að þrír menn skuli getað rústað heilum kosningum í lýðræðisríki vegna smávægilegra formgalla. Að Hæstiréttur skuli svo bíta höfuðið af skömminni með því að hlaupa eftir þessum kæruvitleysum með 100% ógildingu er auðvitað til skammar. Rétturinn gat gert athugasemdir við framkvæmd kosninganna og átti að gera það. En að ógilda fyrstu kosningar til Stjórnlagaþings á Vesturlöndum var ekkert annað en firra forstokkaðra manna.

Þrátt fyrir að þetta mál allt leggist illa í mig, þá gat ég ekki annað en hlegið við lestur kærunnar frá vélvirkja- og rennismíðameistaranum frá Neskaupstað, sem mun vera gallharður sjálfstæðismaður(skemmtileg tilviljun) eins og hinir tveir sem kærðu.

Hvað skyldi hafa valdið þeim hlátri?

Hér kemur kæran:

"Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. laga um stjórnlagaþing nr. 90 frá 2010, sbr. l. nr. 120 frá 2010.  Þorgrímur er á kjörskrá í Neskaupstað og greiddi þar atkvæði á kjörfundi.

Umbj. minn krefst þess að kosningarnar verði úrskurðaðar ógildar á grundvelli þess að framkvæmd þeirra hafi verið aldeilis ófullnægjandi og ólögmæt.  Í því skyni skulu nefnd nokkur atriði og eru þau eftirfarandi:

1.     Merktir kjörseðlar.

Umbj. minn segir að kjörseðlar sem notaðir voru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi hafi verið merktir, þ.e.a.s. númeraðir á bakhlið og auk þess með strikamerki.  Nauðsynlegt er að rétturinn kynni sér útlit kjörseðlanna að þessu leyti.

Ofangreindur ágalli er brot gegn skráðum og óskráðum meginreglum um að kosningar skulu vera leynilegar.  Varðandi lagarök í því efni vísast til sömu lagaraka og reifuð verða í umfjöllun um lið nr. 2 hér að neðan.

2.    Pappaskilrúm í stað kjörklefa.

Á flestum ef ekki öllum kjörstöðum munu ekki hafa verið notaðir hefðbundnir kjörklefar í þessum kosningum, heldur þess í stað pappaskilrúm.  Mun þetta hafa verið gert að undirlagi Dóms- og mannréttindaráðuneytisins.  Í tíufréttum ríkissjónvarpsins þann 4. nóvember sl. var frétt um þetta.  Framkvæmdin var sú að 60 sm. há pappaspjöld séu sett á þrjár hliðar borðs sem kjósandinn á síðan að sitja við.  Síðan eru settir margir þannig klefar hlið við hlið, framan og aftan við hvern annan.  Útilokað er annað en að kjósendur geti hafa kíkt á kjörseðil næsta kjósanda, t.d. þegar þeir standa upp við hliðina á öðrum sem er að fylla út seðil, eða ganga fyrir aftan hann og horfa yfir öxl hans.

Umbj. minn telur þessa framkvæmd ólögmæta og eru lagasjónarmið hans hér að neðan.

Í 5. gr., 26. gr., 1. mgr. 31. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um kosningar til Alþingis, forsetakosningar, kosningar um breytingar á þjóðkirkjunni og kosningar um gildi laga sem forseti hefur synjað staðfestingar.  Í öllum tilvikum er mælt fyrir um að kosningarnar séu leynilegar.  Þessi ákvæði taka þó ekki beint til stjórnlagaþingskosninga, en hér er á ferðinni alger grundvallarregla sem ber að túlka rúmt, auk þess sem telja má að þar sem stjórnlagaþingskosningarnar skulu fara eftir lögum um kosningar til Alþingis sbr. neðangreint þá eigi ákvæðið þannig beint við um stjórnlagaþingskosningar.

Í lögunum um stjórnlagaþing eru nokkur sérákvæði um framkvæmd kosninga, en síðan segir í 2. ml. 1. mgr. 11. gr.:  „Um...framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á“.

Í lögum um Alþingiskosningar nr. 24 frá 2000 er í 69. gr. eftirfarandi ákvæði:  „Í hverri kjördeild skal vera hæfilegur fjöldi kjörklefa. Kjörklefi skal þannig búinn að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs. Í hverjum kjörklefa skal vera lítið borð sem skrifa má við.

Hér er alveg skýrt að kjörklefi sé þannig að aðrir geti ekki séð hvað kjósandi gerir. 

Þrátt fyrir að í nefndu stjórnlagaþingslagaákvæði sé fyrirvarinn “eftir því sem við á”, þá er fráleitt að fyrirvarinn eigi við hér.  Alls staðar í kosningalöggjöfinni kemur leynt og ljóst fram sú grundvallarregla að kosningar skulu vera leynilegar, t.d. í 85. gr. sem segir að kjósandinn skuli brjóta kjörseðilinn saman inni í kjörklefanum og gæti þess að enginn geti séð hvernig hann greiðir atkvæði, og í 87. gr. um að ef kjósandi lætur sjá hvað er á seðlinum megi ekki nota seðilinn en hann geti fengið nýjan. Auk þess vísa stjórnlagaþingslögin, 2. mgr. 15. gr. beint í ákvæði XXV. kafla laganna um kosningar til Alþingis, um að refsivert sé að sýna hvernig maður kýs og refsivert sé að kíkja á hvernig annar maður kýs. 

3.    Kjósendur sviptir rétti til að kjósa í annarri kjördeild.

Sú regla gildir í Alþingiskosningum, að kjósandi getur afsalað sér kosningarétti í kjördeild þar sem hann er heimilisfastur og fengið að kjósa í kjördeild þar sem hann er staddur annars staðar, sbr. 2. tl. 2. mgr. 80. gr. laga um kosningar til Alþingis.  Sama ætti að gilda í þessum kosningum skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing.  Í stjórnlagaþingskosningunum var landið allt eitt kjördæmi, og hefði þetta því átt að vera hægt hvar sem er á landinu.

Umbj. minn telur að í þessum kosningum hafi þessi réttur verið tekinn af fólki.  Fyrirmæli hafi komið frá Landskjörstjórn eða ráðuneytinu um að þetta væri ekki í boði. 

Umbj. minn hefur heyrt af fólki sem vísað var frá kjörstað af þessum sökum, og getur útvegað frekari upplýsingar um það, fari svo að þetta atriði upplýsist ekki á annan hátt.

4.    Ófullnægjandi kjörkassar.

Í umræddum kosningum voru að sögn umbj. míns notaðir e.k. pappakassar í stað hefðbundinna kjörkassa.  Skv. 2. mgr. 69. gr. laganna um kosningar til Alþingis  þurfa kjörkassar að uppfylla lágmarksskilyrði, sem umbj. minn telur að pappakassar þessir hafi ekki fullnægt.  Þar segir m.a. að kassi skuli vera læsanlegur og þannig frágenginn að ekki sé hægt að ná seðli úr honum án þess að opna hann.  Skv. 76. gr. s.l. skal kassanum læst við upphaf kjörfundar. 

Skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing gilda ofangreind ákvæði einnig um kosningar til stjórnlagaþings.

5.    Ekki samanbrotinn kjörseðill.

Að sögn umbj. míns var honum þegar hann kaus, bannað að brjóta kjörseðilinn saman eins og hann er vanur.  Skilst honum að það hafi verið almenn regla í kosningunum að ekki mætti brjóta seðilinn saman.  Skv. 85. gr. laganna um kosningar til Alþingis skal kjósandi brjóta kjörseðil saman inni í kjörklefa og láta hann þannig ofan í kjörkassann.  Frávik frá þessu leiða  til þess að leynd kosninganna sé ekki tryggð.

Skv. 2. ml. 1. mgr. 11. gr. laga um stjórnlagaþing eiga þessar reglur við í stjórnlagaþingskosningum.

Umbj. minn telur að ofangreindir ágallar á kosningunum séu það alvarlegir að ekki verði við unað, og því beri að ógilda kosningarnar.

Virðingarfyllst,

f.h. Þorgríms S. Þorgrímssonar,

____________________________

Esther Hermannsdóttir hdl."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Get over it Björn, lögin og framkvæmdin voru klúður og framganga Guðrúnar Pétursdóttur sínu verst. Bara sú staðreynd að utankjörfundar atkvæðagreiðsla var ekki í samræmi við lög um alþingiskosningar nægir til að ógilda kosningarnar. Síðan er það kjörseðillinn og flókin útfylling sem varð til þess að stórir hópar ákváðu að sitja heima.
En eitt jákvætt hefur samt komið út og það er að svona persónukosning er best að fari fram rafrænt. Og þeir sem ekki treysti sér til að kjósa rafrænt fái að taka með sér aðstoðarmann og kjósa utan kjörfundar hjá sýslumönnum
Fyrst farið var út í rándýrar tilraunir með rafræna talningu á kjörseðlunum þá er ekkert sem mælir á mót sparnaði, einföldun og meiri skilvirkni sem felst í rafrænum kosningum

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.1.2011 kl. 14:50

2 Smámynd: Björn Birgisson

Hvernig viltu útfæra rafrænar kosningar? 20 tölvur í hverri kjördeild?

Björn Birgisson, 26.1.2011 kl. 14:56

3 Smámynd: Pétur Harðarson

Við getum svo sannarlega verið sammála, Björn, um að gærdagurinn hafi verið svartur. Mér finnst þó þessir þremenningar bera litla ábyrgð á því svartnætti. Í gær kom í ljós að alþingi Íslendinga er of veikt til að setja fram lög um lýðræðislegar kosningar. Þú getur gert eins lítið og þú vilt úr þessum þremur borgurum en það breytir ekki því að lögin og framkvæmdin voru gölluð. Nógu veikt var þetta stjórnlagaþing eftir verstu kjörsókn sögunnar þó ekki bættist við ólögleg kosning.

Þeir sem lögðu fram frumvarpið um stjórnlagaþing hefðu átt að taka í handbremsuna þegar í ljós kom fjöldi frambjóðenda. Þeir hefðu átt að fara betur yfir lögin og tryggja að kosningin yrði yfir allan vafa hafin. Einnig hefði átt að stoppa þetta ferli eftir að kærur komu fram en Jóhanna sagði á þingi að hún hefði litlar áhyggjur af þessum kærum og áfram var ausið almannafé í þennan skrípaleik. Og nú er Jóhanna fúl af því að ráðabrugg hennar um að koma ESB ákvæðum í stjórnarskrá hefur tafist. Henni er skítsama um fólkið í landinu eða kostnaðinn sem í þetta fer. Hún er í persónulegri herferð sem beinlínis skaðar þjóðina og því á hún að segja af sér strax.

Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 15:01

4 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Þar sem ekki er farið að lögum, þar verður ekkert Lýðræði, það er bara svoleiðis!!!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 26.1.2011 kl. 15:09

5 Smámynd: Björn Birgisson

Pétur ritar: "Þú getur gert eins lítið og þú vilt úr þessum þremur borgurum ....."

Hvað áttu við?

Já, dagurinn var vissulega svartur og þín sýn á þann sorta á jafn mikinn rétt á sér og mín.

Björn Birgisson, 26.1.2011 kl. 15:11

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Alveg furðulegt að kenna kærendunum um þetta klúður.

Axel Jóhann Axelsson, 26.1.2011 kl. 15:14

7 Smámynd: Björn Birgisson

Eyjólfur, ég er þess fullviss að í öllum kosningum fer eitthvað úrskeiðis, bæði hérlendis og ekki síður hjá stóru þjóðunum. Menn eru ef til vill að klikka á einhverjum smáatriðum í framkvæmdinni. Á þá að ógilda alla kosninguna? Ef þú færð litlar bólur neðst á hvora rasskinnina, á þá að ráðast í að taka af þér báða fæturna?

Björn Birgisson, 26.1.2011 kl. 15:19

8 Smámynd: Pétur Harðarson

Það sem ég átti við Björn er að þú hlærð að kæru eins þeirra og gerir þannig lítið úr hans máli.

Pétur Harðarson, 26.1.2011 kl. 15:20

9 Smámynd: Björn Birgisson

Axel Jóhann, afstaða þín til þessa máls þarf ekki að koma neinum á óvart. Sumt er svo auðveldlega fyrirséð.

Björn Birgisson, 26.1.2011 kl. 15:21

10 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Björn" Eitt lítið orð sem þú tekur ekki eftir  í kaupsamningi getur gert þig að öreiga. þá eru það lögin sem gilda, í þessu tilviki á ekki heldur að vera nein undantekning í lögum!! Samlíkingin var ágæt hjá þér, en hún bara stenst ekki.!!

Eyjólfur G Svavarsson, 26.1.2011 kl. 15:46

11 identicon

Athyglisverð pæling hjá Jóhannesi um rafrænar kosningar. En hvernig brýtur maður rafrænan kjörseðil saman og stingur honum í læstan kassa...??? Hmmm...! ;)

Ybbar gogg (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 21:47

12 Smámynd: Björn Birgisson

Ybbar gogg, Jóhannes Laxdal er flottur karl, sérstaklega af því að hann er alltaf að ybba gogg. Svo var hann með frábæra færslu um þetta mál á síðunni sinni í dag, sem þú hefur væntanlega korrað þig í gegnum.

Björn Birgisson, 26.1.2011 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Björn Birgisson

Höfundur

Björn Birgisson
Björn Birgisson

Er Ísfirðingur, búsettur í Grindavík síðan 1975, óflokksbundinn alla tíð, en áhugasamur um þjóðmál, smærri sem stærri. Afrekaskráin mín í lífinu er vel varðveitt leyndarmál. Er þó tvöfaldur einherji, þrátt fyrir 18 í forgjöf! Ef mikið liggur við er síminn minn 692-8060.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ÞKGR
  • Siðlausi Mogginn (2)
  • Kastljós (2)
  • Lýðskrum (2)
  • Guð2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband