Færsluflokkur: Bloggar

Jóhanna Sigurðardóttir teygir á tíma sínum

Ekki skil ég þá ákvörðun Jóhönnu Sigurðardóttur að ætla að bjóða sig áfram fram til formennsku í Samfylkingunni.

Hún er orðin fullorðin, mjög erfið ár að baki, þar sem hún hefur bæði fengið óverðskuldaða og verðskuldaða gagnrýni á störf sín og yfirlýsingar.

Núna væri rétti tíminn fyrir hana að stíga til hliðar.

Það ætlar hún greinilega ekki að gera.

Hún er líklega að ofmeta stuðning þjóðarinnar við verk sín.

Hann er ekkert til að hrópa húrra fyrir.

Bent hefur verið á að arftaki sé enginn innan sjónmáls.

Fyrir þá skoðun gef ég ekkert.

Jóhönnu hlýtur bara að leiðast heima hjá sér!


Blautlegur kveðskapur í tvennum skilningi

Bjarni sofa frækinn fer,
fús í kofann ganga.
Auðgrund lofar álma ver
oft í klofið svanga.

Höfundur:
Eiríkur Pálsson (Prjóna-Eiríkur) (1825-1900)

Vappar kappinn vífi frá
veldur knappur friður
happatappinn honum á
hangir slappur niður.

Höfundur:
Jörundur Gestsson á Hellu (1900-1989)

Þó sundur bræðist himna hæð,
hafið flæði, titri lönd,
mín skal blæða ballar æð
blíð ef þæði menja strönd.

Höfundur:
Guðbrandur Jónsson Fjeldmann (fæddur um 1750)

Ég drekk fremur faglega
og fer ekki yfir strikið
þótt ég drekki daglega
og drekki stundum mikið.

Höfundur:
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi (1908-1970)

Ég hætti að drekka í hálfan mánuð hérna um daginn
til að reyna að tryggja haginn
og til að koma reglu á bæinn.

Höfundur:
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi (1908-1970)


Af tilhlökkun titrar minn barmur,
ég trúi að sálinni hlýni
er hátt lyftir hægri armur
heilflösku af brennivíni.

Höfundur:
Haraldur Hjálmarsson frá Kambi (1908-1970)


Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, hengdi allar orðurnar á brotamanninn

Gæti það verið að Ólafur Skúlason, fyrrum biskup Íslands, sé sá brotamaður þjóðarinnar sem mest og best hefur verið heiðraður af þeirri sömu þjóð? 

Ólafur Skúlason dómsprófastur fékk Riddarakross árið 1982
Ólafur Skúlason vígslubiskup fékk Stórriddarakross árið 1987
Ólafur Skúlason biskup fékk Stórriddarakross með stjörnu árið 1990
Ólafur Skúlason biskup fékk Stórkross árið 1992

Ólafur Skúlason biskup fékk ekki Stórkrossstjörnu í keðju eins og þjóðhöfðingjar fá!

Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, hengdi þessar orður á brotamanninn.


Útgáfa dagblaða, jafnt hérlendis sem erlendis, er á lokaspretti

Morgunblaðið er eins og þorskur á þurru landi. Lífi er haldið í blaðinu með gífurlegum fjáraustri frá nokkrum stórum útgerðarfyrirtækjum.

Örlög sem bíða þorska á þurru landi verða ekki umflúin.

Útgáfa dagblaða hérlendis er á lokaspretti.

Dagblöð eru deyjandi form fjölmiðlunar.

Þökk sé Internetinu.


Bjarni mun skíttapa fyrir Hönnu Birnu og það veit hann manna best

Minn spádómur er að rætast! Ég hef margoft haldið því fram að landsfundur Sjalla í nóvember verði sögulegur.

Í annað sinn í sögu flokksins verður sitjandi formaður felldur og í fyrsta sinn í sögu flokksins mun kona leiða hann inn í framtíðina.

Hanna Birna skal vera búin að gera þetta upp við sig.

Hún ætlar fram gegn Bjarna.

Vel er þó hugsanlegt að Bjarni dragi framboð sitt til baka taki Hanna Birna af skarið.

Hann mun skíttapa fyrir henni og það veit hann manna best.


Stjórnmálasviðið er nokkuð opið fyrir nýja leikara um þessar mundir!

Ég bíð nokkuð spenntur eftir frekari fréttum af nýja flokknum sem Guðmundur Steingrímsson og Guðbjörn Guðbjörnsson ætla að stofna.

Sá flokkur mun örugglega hirða all mörg atkvæði frá Framsókn og Sjöllum, kannski líka eitthvað frá Samfylkingunni og VG.

Þeir félagar verða að vinna hratt og vel, því enginn veit hversu langt er í næstu kosningar.

Einu sinni var alltaf sagt að allt væri betra en íhaldið.

Nú segja margir að allt sé betra en fjórflokkurinn.

Stjórnmálasviðið er nokkuð opið fyrir nýja leikara um þessar mundir!

Hvað er að frétta?


Einræðistilburðir forsetans

Á hvaða vegferð er forseti Íslands spyrja margir. Á hvaða vegferð er ríkisstjórnin spyrja aðrir.

Grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Fréttablaðinu í dag rammar inn með eftirminnilegum hætti að forsetinn er kominn í glórulaust stríð við löglega kjörin stjórnvöld í landinu og beitir í áróðri sínum völdum sem honum hafa aldrei verið falin, en hann tekið sér að hætti einræðisherra.

Hvað ætlar forsetinn að gera ef svo illa færi að við skíttöpuðum öllum málum tengdum Icesave fyrir dómstólum?

Segja bara sorry eins og hermaðurinn sem skaut óvart stúlkubarnið í stað föðurins eins og frá var greint í þekktu kvæði eftir Kristján Einarsson frá Djúpalæk, Slysaskot í Palestínu?

Sjá grein Jóns Baldvins Hannibalssonar: http://www.visir.is/lady-ga-ga-/article/2011709079987


Alþingi, ferðaþjónustan og afturhaldsseggurinn

Kínverskur peningamaður varpar fram hugmynd sem er stjarnfræðilega langt frá hugmyndaflugi flestra venjulegra manna.

Margir virðast fagna hugmyndinni. Hreint ekki allir.

Kaldhæðni örlaganna er sú að hugmyndin skuli eiga líf sitt undir duttlungum afturhaldssamasta stjórnmálamanns Íslands, Ögmundar Jónassonar.

Það gengur ekki. Það sér hver maður.

Þjóðkjörið Alþingi verður að taka af skarið í þessu máli.

Með eða á móti.

Einræði afturhaldsseggsins á ekki að líða í þessu máli fremur en í öðrum.


Verðtryggingin er skuggi krónunnar

Sumt er einfaldara en annað. Til dæmis að skilja samhengið á milli krónunnar og verðtryggingarinnar.

Þeir sem vilja krónuna áfram vilja verðtrygginguna áfram. Verðtryggingin er skuggi krónunnar.

Tvær leiðir til að losna við verðtrygginguna:

Að semja við Kölska um að hirða skuggann eins og af Sæmundi fróða forðum.

Að taka upp öflugri gjaldmiðil.

Hvort er líklegra til árangurs?

Verðtryggingin er krónumönnum mikils virði, en þjóðhagslega eru krónumenn ekki eyris virði.


Endurtekninga syndrómið

Algjör kjaftasaga. Sagan segir að ritstjóri Moggans hafi farið þess á leit við útgefanda að Staksteinar frá hruni yrðu gefnir út á bók.

Útgefandinn hugsaði sig aðeins um og sagði svo:

Gefðu þetta heldur út á gömlum vinyl með rispu, þetta er hvort eð er alltaf sama tuggan!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Björn Birgisson

Höfundur

Björn Birgisson
Björn Birgisson

Er Ísfirðingur, búsettur í Grindavík síðan 1975, óflokksbundinn alla tíð, en áhugasamur um þjóðmál, smærri sem stærri. Afrekaskráin mín í lífinu er vel varðveitt leyndarmál. Er þó tvöfaldur einherji, þrátt fyrir 18 í forgjöf! Ef mikið liggur við er síminn minn 692-8060.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • ÞKGR
  • Siðlausi Mogginn (2)
  • Kastljós (2)
  • Lýðskrum (2)
  • Guð2

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband