29.12.2010 | 23:02
Steingrímur J. Sigfússon er tvímælalaust maður ársins
Nú eru allir á fullu í því að vega og meta líðandi ár. Margt er vegið og metið og léttvægt fundið, annað hefur meiri vigt eins og gengur. Sumir menn, reyndar margir menn, eru bara loftbólur í mannlífinu og þungavigtarmenn eru öllu færri. Hvað andlegt atgervi áhrærir allavega. Margir vigta þó drjúgt í fallþunga, þótt heilinn sé að mestu lamaður.
Maður ársins 2010 er tvímælalaust Steingrímur J. Sigfússon.
Honum hefur tekist á undraskömmum tíma að skjáskjóta sér fram hjá flestum stefnumálum flokks síns, enda flest hver þröngsýn og leiðinleg og eiga lítið erindi við þjóðina hnípnu hér norður við Ballarhaf. Þetta veit Steingrímur, enda maður með langa reynslu í stjórnmálum.
Honum hefur tekist að stórlækka Icesave skuldina, svo nemur kannski hundruðum milljarða flotkróna. Reyndar með smá hjálp frá forsetanum, þjóðinni og hinni glórulausu stjórnarandstöðu. Það munar um minna fyrir staurblankan og skröltandi ríkisbaukinn. Gott mál.
Þá hefur honum tekist að kljúfa flokkinn, sem var nánast hans eingetna afkvæmi, í herðar niður, þannig að nú fer þjóðin aftur að eignast 3-7% alvöru kommaflokk, eins og flest okkar, sem komin erum til efri ára, munum svo vel eftir að hafa alist upp með. Samfylkingin mun éta upp restina af VG tertunni og skyndilega verða jafnaðarmenn á Íslandi stór flokkur, rétt eins og á hinum Norðurlöndunum. Þökk sé Steingrími.
Ýmis önnur afrek hefur Steingrímur unnið á árinu. Hann er dugnaðarforkur, í fínu formi og til mikilla afreka líklegur í framtíðinni.
Bara spurning hverjum líkar við afrekin.
Steingrímur J. Sigfússon er tvímælalaust maður ársins.
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bíddu, hvernig klauf Steingrímur flokkinn ?
hilmar jónsson, 29.12.2010 kl. 23:25
Svona, svona, vertu rólegur, kannski með því að hlusta ekki á raddir grasrótarinnar, sem vildu fylgja samþykktum flokksins!
Björn Birgisson, 29.12.2010 kl. 23:51
Blessaður Björn,.
Núna komst þú mér á óvart.
Einföld nafnakönnun taldi mér í trú um að neistar hefðu kveikt bál, og Lilja væri þinn kandidat.
En vissulega er hún kona, það kannski telur ekki.
Ekki í mann ársins.
En ég er ekki viss um þetta með Samfylkinguna, held að vandinn sé meiri og umrótið dýpra. Þori ekki að spá hvað verður, svona eftir að tölva og flatskjár tóku við af kertum og spilum.
En Samfylkingin á ekki annað mál en ESB, og ESB er að falla líkt og önnur nýlenduveldi, Þjóðverjum mun ekki takast að skuldaþrælka jaðarlönd sambandsins, það er útilokað. Allir feður taka almenna velferð, skóla og heilsugæslu fram yfir evruskuldaþrældóm, líka þeir sem búa í Grikklandi, Írlandi, Belgíu, Portúgal, Spáni, Ítalíu, Lettlandi, Eistlandi og Ungverjalandi, og þar með er draumurinn um sameinaða Evrópu úr sögunni.
Hann eiginlega hvarf þegar Rússland hafði ekki lengur efni á að kaupa olíu á skriðdreka sína, síðan hefur ekkert hervald haft mátt til að hneppa aðra þjóðir í skuldaþrældóm.
Ég spái nýjum flokki, en veit ekki á hvaða forsendum, en hann mun ekki vera um skuldaþrælkun heimila, uppgjöf saka við auðmenn, eða greiðslu á fjárkúgun breta.
Þannig að Samfó mun ekki ná 5% sem Gylfi óttaðist svo mjög að yrði ókleifur múr gamla Alþýðuflokksins.
Og það er of snemmt að afskrifa Steingrím, hann er ólíkindatól.
Og Lilja er maður ársins.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 00:19
Sæll Ómar, alltaf gaman að fá þig í heimsókn og gríðarlega gaman að geta komið þér á óvart. Þetta "óvart" máttu skoða sem 18 rauðar rósir til þín, með þakklæti fyrir árið sem er að líða!
Björn Birgisson, 30.12.2010 kl. 00:28
Sömuleiðis Björn.
Ég treysti á þig að halda áfram að koma mér á óvart.
Þess vegna er ég fastagestur hér, þó ég láti mismikið í mér heyra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.12.2010 kl. 00:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.