Færsluflokkur: Bloggar
21.3.2011 | 18:58
Það knýr enginn galeiðu áfram með handónýtum og fýlugjörnum ræðurum
Í stjórnmálum er oft gripið til líkindamáls. Einn flokkurinn hoppar upp í til annars og oft er talað um þjóðarskútuna sem allir vilja að sigli seglum þöndum í góðum byr. Svo er ekki nú. Hreint ekki. Reyndar oft verið siglt bratt í fölskum byr.
Í gamla daga sigldu galeiður um heimshöfin knúnar áfram með vindi í seglin. Væri vindur ekki hagstæður tók við handafl þrælanna neðjan þilja, sem oft voru látnir róa lífróður með níðþungum árum undir svipuhöggum og trumbutakti kvalara sinna.
Íslenska þjóðarskútan er ekkert annað en galeiða um þessar mundir. Með illa laskaðan seglabúnað og knúin áfram með handafli kjörinna þræla þjóðarinnar, sem nú róa lífróður í átt til betri tíma, með svipuhögg helmings þjóðarinnar á blóðugu bakinu.
Á þrælabekknum gilda viss lögmál. Þar verða menn að standa saman og róa í takt. Þar segir enginn að hann nenni þessu ekki, vilji þetta ekki, eða vilji eitthvað annað. Þar er valið ekkert. Nákvæmlega ekkert. Illir ræðarar rjúfa samstöðuna og samstöðuleysi leiðir til glötunar galeiðunnar og frjálsrar áhafnarinnar, jafnt sem hlekkjaðra þrælanna neðan þilja.
*****************
Í tilefni af leiksýningu Atla og Lilju í þinghúsinu í dag vil ég segja þetta.
Þau hafa verið illir ræðarar í stjórnarsamstarfinu. Reyndar eins og óþekkir krakkar, sem fara í fýlu, ef ekki er allt gert samkvæmt þeirra ósk. Í 35 manna liði er ekki pláss fyrir 35 skoðanir. Það sér hvert mannsbarn. Meirihlutinn ræður. Það er víst kallað lýðræði.
Halda menn að leitað hafi verið til AGS með einhverja gleði í hjarta? Halda menn að valkostirnir hafi verið fjölmargir? Halda menn að þjóðirnar hafi beðið í löngum biðröðum eftir því að hjálpa okkur?
Halda menn að reynt hafi verið að semja um Icesave með einhverja gleði í hjartanu? Síður en svo. Það hafa menn gert með tárin í augunum og æluna í kokinu. Í raun styður enginn Íslendingur aðkomu og harkalegar kröfur AGS og þaðan af síður Icesave viðbjóðinn. Það er ekkert annað en lúalegt óþverrabragð að halda öðru fram.
Þegar mál eru þannig að allar lausnir eru vondar, þá dugar ekkert lýðskrum. Menn verða að hafa kjark og þor til að velja illskásta kostinn. Það hafa menn vonandi verið að gera. Það ætlar Bjarni Benediktsson að gera þann 9. apríl, samkvæmt því hvernig hann greiddi atkvæði um frumvarpið umdeilda.
Varðandi brotthvarf Lilju og Atla úr þingflokki VG.
Það er af hinu góða. Það knýr enginn galeiðu áfram með handónýtum og fýlugjörnum ræðurum, þar sem samtakamátturinn skiptir öllu. Algjörlega öllu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
21.3.2011 | 16:12
Hvernig kvenfyrirlitning?
"Eftir að niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á fyrirlestri í Háskóla Íslands á föstudaginn, fékk Hrafnhildur bréf frá nemendafélagi rafmagns- og tölvuverkfræðinema, VÍR, þar sem segir meðal annars að stjórn félagsins hafi ekki áhuga á að viðhalda þeim hefðum sem hingað til hafi viðgengist og hafi falið í sér kvenfyrirlitningu."
Hvers konar fréttamennska er þetta? Skeiðað algjörlega framhjá djúsi stöffinu! Sem þó fréttin byggist alfarið á!
Hvaða hefðir er hér um að ræða, sem á að leggja af?
![]() |
Kvenfyrirlitning í verkfræðinámi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.3.2011 | 12:48
Ef Samfylkingin nennir að vinna áfram með sundurtættum flokki VG þá er þessi ríkisstjórn ekkert á förum
Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sögðu bless við þingflokk VG í morgun með formlegum hætti, en voru í raun fyrir löngu búin að því með óformlegum hætti.
Í mínum huga er þetta eiginlega engin frétt. Hefur legið svo lengi í loftinu.
Nú eiga spurningar dagsins hjá fréttamönnum að vera þessar:
Hvað gera Ásmundur Daði, Jón Bjarnason, Guðfríður Lilja og Ögmundur eftir að þessi staða er komin upp? Þau eru öll hjartanlega sammála Atla og Lilju í flestum málum.
Er stofnun nýs flokks á vinstri vængnum í bígerð?
Getur ríkisstjórnin gert Hreyfingunni einhver tilboð og tryggt hjásetu þeirra eða já atkvæði?
Getur ríkisstjórnin tryggt sér stuðning eða hjásetu einhverra Framsóknarþingmanna? Hvað með Siv Friðleifsdóttur? Hún virðist höll undir ýmis mál ríkisstjórnarinnar.
Svo held ég að Atli og Lilja muni ekki greiða atkvæði gegn ríkisstjórninni. Hjáseta mun verða þeirra hlutskipti í flestum málum. Eins og það er nú stórmannleg afstaða á sjálfu þjóðþinginu.
Ef Samfylkingin nennir að vinna áfram með sundurtættum flokki VG þá er þessi ríkisstjórn ekkert á förum.
Steingrímur mun ekki rjúfa þetta samstarf. Honum og liðinu í hans innsta hring finnst of gaman í ráðherraleiknum til þess að það verði.
Svo vita allir sem hugsa að það er enginn áhugi fyrir kosningum hjá einum einasta þingmanni á Alþingi. Þeir eru allir skíthræddir um stólinn sinn og ekki eru þau verkefni sem framundan eru á vettvangi ríkisstjórnar neitt til að sækjast í. Sama hvað hver segir!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2011 | 11:06
Hvað gerir svo guttinn?
"Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafa sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna."
Kemur ekki á óvart. Aumingjagangur af þeim að vera ekki fyrir löngu búin að segja bless við Steingrím, miðað við allan þeirra málatilbúnað, ekki hvað síst í tengslum við fjárlögin.
Hvað gerir svo guttinn?
![]() |
Segja sig úr þingflokki VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.3.2011 | 00:15
Ísland og Líbýa. Jóhanna leysir Gaddafi af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2011 | 23:03
Þennan mann þarf að fella til jarðar og koma niður á sjö fetin
"Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbýu, hótaði í kvöld að ráðast á hernaðarleg og borgaraleg skotmörk við Miðjarðarhaf í hefndarskyni fyrir loft- og eldflaugaárásir vesturveldanna á Líbýu í kvöld."
Þetta þýðir bara eitt. Hann skynjar endalok sín rétt handan við hornið og er staðráðinn í að taka eins marga með sér í fallinu og honum er unnt að gera, í sinni alþekktu geðveiki og eiturefnavímu.
Þennan mann þarf að fella til jarðar og koma honum niður á sjö fetin í sandinum þarna syðra.
Hann er stórhættulegur þjóð sinni og öðru saklausu fólki sem hann hótar nú í grannlöndum.
Þegar tveir vondir kostir eru í boði, ber að taka þann sem illskárri er. Til þess þarf kjark og hreinskilni. Einnig raunsætt mat á stöðunni. Að hvetja til dráps vitfirrings er ekki endilega af hinu slæma.
Hver hefði ekki viljað fella Hitler, Stalín, Pol Pot eða Mussolini? Hvað létu þeir drepa margar milljónir saklausra borgara? Nefni þessa fjóra sem dæmi. Fleiri eru þeir fjöldamorðingjarnir í sögunni.
Fellum þennan viðbjóð, áður en hann fellir fjöldann allan af sínu fólki, sem og fólki í nágrannalöndum.
Allur hans tilveruréttur er runninn sitt skeið á enda.
![]() |
Gaddafi hótar hefndum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2011 | 21:21
Hvað fólki finnst um Landeyjahöfn, niðurstaða könnunar
Landeyjahöfn er mikið í fréttum og verður það vafalítið lengi enn. Þar moka menn sandi í beinni keppni við Atlantshafið og þunga strauma þess með suðurströnd landsins. Einhver sagði að jafn mikill sandur væri þarna og í hálfri Sahara eyðimörkinni - og alltaf bættist við!
Hér koma úrslit könnunar sem ég gerði á síðunni minni um þetta mál:
Var hugmyndin að gerð Landeyjahafnar:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2011 | 17:05
Veit Jóhanna ekki að það er þjóðaríþrótt á Íslandi að sniðganga tilmæli stjórnvalda?
"Hún hafi farið fram á það að hækkanirnar verði dregnar til baka en engin viðbrögð fengið við þeirri beiðni."
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Veit hún ekki að það er þjóðaríþrótt á Íslandi að sniðganga tilmæli stjórnvalda og jafnvel lög lýðveldisins?
Sjálftöku lið ofurlaunanna er orðið eins og Mafía í þessu landi og allir vita að baráttan við Mafíuna er fyrirfram töpuð.
Stjórnvöld geta ekkert gert í þessu máli. Annað en að hóta hinu og þessu.
Þetta breytist ekkert úr því sem komið er.
![]() |
Fulltrúar ríkisins víki úr bankaráðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2011 | 14:24
Ofurlaunin hafa öðlast sjálfstætt líf og eru komin til að vera
Málamiðlunarleið Samfylkingarinnar gengur ekki upp! Samningsfrelsi ríkir í landinu," segir Lilja. Hún hefur áður lagt til að lagt verði nýtt hátekjuskattþrep á tekjur yfir milljón á mánuði."
Ofurlaunin enn og aftur.
Það ríkir algjört stjórnleysi í þessu landi varðandi sjálftöku ofurlauna. Hvernig má það vera að gjaldþrota fyrirtæki, sem eru í öndunarvélum á gjörgæslum bankanna, geti greitt forstjórum sínum tvær til fjórar milljónir á mánuði? Sömuleiðis endurreistir bankar með fjármunum almennings.
Ofurlaunin hafa öðlast sjálfstætt líf og eru komin til að vera. Segja má að þau séu skilgetið afkvæmi framsalsheimildarinnar á kvótanum, einkavæðingaræðisins sem hér gekk yfir og toppnum hafi svo verið náð með einkavæðingu bankanna.
Þau eru fyrirbrigði sem alltaf verður mikið rætt um án þess að nokkuð gerist.
Stjórnvöld ráða ekki við þetta mál.
Ekki Lilja Mósesdóttir heldur.
Ofurlaunaþegar brosa bara í kampinn í sínum ofurhúsum, í sínum ofurbílum, í sínum ofursumarhúsum erlendis og innanlands. Í sínum ofurskíðaferðum og ofursólarlandaferðum. Síðast en ekki síst, í sinni ofurerfiðu vinnu, sem oftar en ekki er hjá ofurgjaldþrota fyrirtækjum.
![]() |
Vilja standa vörð um háu launin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2011 | 01:29
Molar dagsins úr smiðju Björns Birgissonar
Fór í Smáralind í dag. Elti þar konuna mína eins og dyggur rakki, sem beið þess eins að komast út aftur. Karlar eru ekki búðavænar skepnur, frekar en hundar eru vel séðir á tjaldsvæðum landsins!
1. moli. Einkaneyslan er að dragast saman. Það var fámennt í Smáralindinni í dag , þrátt fyrir mjög góð afsláttartilboð. Með minnkandi innkomu virðisaukaskatts þarf Steingrímur að hækka einhvers staðar. Vond tíðindi eru í uppsiglingu. Staurblankir landar að skoða, þreifa og láta sig dreyma, með budduna galtóma. Blankar sálir sveimandi um gangana.
2. moli. Fórum hjónin í bíó í Álfabakkanum. The King's Speech. Þvílíkt augnakonfekt. Ekki hissa á öllum þessum Óskurum. Hefði haft þá fleiri, en enginn spurði mig álits! Svakalega flott mynd. Ekki missa af henni! Glæsilegt innlegg fyrir alla stamara heimsins. Allt það góða og flotta fólk.
3. moli. Við heimkomuna til Grindavíkur opnaði ég Moggabloggið. Þvílík vonbrigði. Moggabloggið er að hrynja. Það fær engan Óskar frá mér. Það er komið að fótum fram. Því miður. Eins og það var fjölbreytt og skemmtilegt þegar ég kynntist því fyrir þremur árum tæpum. Nú er hún Snorrabúð stekkur.
4. moli. Ísland hefur alltaf verið land sauðkindarinnar, sem hefur verið leyft að naga hér allt niður að rót. Halldór Pálsson heitinn, fyrrum búnaðarmálastjóri, sagði eitt sinn (í túlkun Flosa heitins Ólafssonar) að sauðkindin skiti meiru en hún æti, landinu til góða. Nú keppast stjórnmálamenn þjóðarinnar við að ná samsvarandi skitu, landinu til góða. Ekkert vex upp af því. Svo er lyktin arfavond.
5. moli. Svo þarf að kjósa um Icesave, í boði forsetans. Verði Icesave samþykkt líður Ólafur Ragnar undir lok. Sem er í lagi mín vegna. Hann dundar sér þá bara við að telja demanta frúarinnar. Fullt djobb þar fyrir forsetann!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Um bloggið
Björn Birgisson
Færsluflokkar
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar